Erlent

Sænski rapparinn Yasin laus úr fangelsi eftir að hafa skipu­lagt mann­rán

Atli Ísleifsson skrifar
Yasin Mahamoud er einn vinsælasti rappari Svíþjóðar.
Yasin Mahamoud er einn vinsælasti rappari Svíþjóðar.

Sænski rapparinn Yasin er nú laus úr fangelsi eftir að hafa skipulagt mannrán sem beindist gegn rapparanum Einár, sem nú er látinn.

Sænskir fjölmiðlar greina frá þessu í dag, en Yasin Mahamoud er einn vinsælasti rappari landsins og hefur lögum hans verið streymt í mörg milljónum skipta, meðal annars á Spotify.

Í dómi héraðsdóms kom fram að Yasin hafi boðið rapparanum Einár í upptökuver ásamt nokkrum úr glæpahópnum Vårbynätverket sem áttu svo að flytja Einár nauðugan á brott. Áætlunin gekk þó ekki eftir í það skiptið og dæmdi héraðsdómurinn Yasin í tíu mánaða fangelsi í júlí síðastliðinn fyrir að hafa skipulagt mannrán.

Yasin var einn 28 liðsmanna Vårbynätverket sem réttað var yfir á árinu vegna ýmissa mála. Þannig var hinn 33 ára Chihab Lamouri, sem sagður er leiðtogi glæpahópsins, dæmdur í tæplega átján ára fangelsi. Var samanlögð refsing mannanna 147 ára fangelsi, en ákæruliðir sneru meðal annars að tilraunum til morðs, mannrán, stórfelld vopnalagabrot og fíkniefnaviðskipti.

Rapparinn Einár var skotinn til bana í Hammarby sjöstad í suðurhluta Stokkhólms í október síðastliðinn. Morðið hefur leitt til mikillar umræðu í sænsku samfélagi um tengsl rappara og glæpasamtaka og rappmenninguna í landinu almennt. 

Einár, sem hét Nils Kurt Erik Einar Grönberg réttu nafni, varð nítján ára.


Tengdar fréttir

Einn vin­sælasti rappari Sví­þjóðar skotinn til bana

Sænski rapparinn Einár var skotinn til bana í Hammarby sjöstad í Stokkhólmi í gærkvöldi. Sænskir fjölmiðlar greina frá því að heimildarmenn segi Einár hafa ítrekað verið hótað. Morðið er talið tengjast átökum glæpagengja í sænsku höfuðborginni.

Var rænt á síðasta ári og hafði fé verið sett til höfuðs honum

Sænski rapparinn Einár, sem skotinn var til bana í gærkvöldi, átti þrátt fyrir ungan aldur fortíð innan heims sænskra glæpagengja. Honum hafði áður verið rænt af hópi manna. Fé hafði verið sett til höfuðs honum nokkrum vikum áður en honum var ráðinn bani. 

Tíu skotum skotið að rapparanum Ein­ár

Tíu skotum var skotið að sænska rapparanum Einár, úr tveimur mismunandi skotvopnum, þegar hann var ráðinn af dögum í suðurhluta Stokkhólms síðastliðinn fimmtudag. Hann var skotinn í bringu og í höfuð. Skotið hafði verið á tvo aðra rappara, sem voru í fylgd með Einár umrætt kvöld, kvöldið áður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×