Innlent

„Þetta er bara stórkostleg tilviljun“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Ekki hefur orðið vart við kviku í Geldingadölum síðan 18. september, en þann dag hófst gos á La Palma. Þremur dögum eftir að gosinu lauk á La Palma hófst skjálftahrina á Reykjanesi að nýju.
Ekki hefur orðið vart við kviku í Geldingadölum síðan 18. september, en þann dag hófst gos á La Palma. Þremur dögum eftir að gosinu lauk á La Palma hófst skjálftahrina á Reykjanesi að nýju. Vísir/Vilhelm

„Þetta er bara stórkostleg tilviljun, það er engin tenging þarna á milli,“ segir Salóme Jórunn Bernharðsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, um þá staðreynd að sama dag og hætti að gjósa í Fagradalsfjalli hafi eldgos hafist á La Palma á Kanarí, og að skömmu eftir að það hætti að gjósa á La Palma hafi skjálftahrina hafist að nýju á Reykjanesi.

Stjórnvöld á Spáni lýstu formlega yfir goslokum á La Palma í gær, en ekki hefur gosið þar síðan 18. desember. Þremur dögum síðar, eða 21. desember, hófst skjálftahrinan á Reykjanesi og óvissustigi var lýst yfir í framhaldinu.

 Nú hefur ekki gosið í Fagradalsfjalli síðan 18. september, en þann sama dag hófst gosið á La Palma. Salóme segir þetta merkilega staðreynd en að engin tenging sé þarna á milli.

Þó að gosinu sé lokið er staðan á þeim hluta eyjunnar þar sem gosið reið yfir afar slæm. Þessi mynd var tekin í lok nóvember, þegar gosið var enn í fullu fjöri.Vísir/Getty

Líkt og komið hefur fram er útlit fyrir að kvika sé að reyna að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Ekkert lát er á skjálftahrinunni en um fimmtán þúsund skjálftar hafa mælst á svæðinu síðan á þriðjudag. 

Íbúar á suðvesturhorninu vöknuðu margir við kröftuga skjálfta um fimmleytið í morgun, sá fyrri var 3,6 að stærð og seinni 3,3 að stærð.

„Það má vænta þess að hann hafi fundist á öllu suðvesturhorninu. Grindvíkingar hafa fundið töluvert mikið fyrir þessu og ég býst að þannig hafi það líka verið í Reykjanesbæ,“ segir Salóme.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×