Erlent

Að minnsta kosti 208 látnir og eyðileggingin gríðarleg

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Barn freistar þess að bjarga eigum sínum úr húsarústum.
Barn freistar þess að bjarga eigum sínum úr húsarústum. AP/Jay Labra

Dánartalan af völum ofur-fellibylsins Rai sem reið yfir Filippseyjar á fimmtudag hefur hækkað mikið um helgina en nú er talið að 208 hið minnsta hafi látið lífið í óveðrinu.

 Um 300 þúsund manns þurftu að flýja heimili sín áður en veðrið skall á en vindurinn náði um 195 kílómetra hraða á klukkustund þegar mest var. 

Um 240 slösuðust í veðurhamnum og rúmlega 50 er enn saknað að sögn lögreglunnar á staðnum en veðrið gekk yfir suðausturhluta Filippseyja. 

Erfiðlega hefur gengið að ná sambandi við sum svæði sem lentu í veðrinu og því óttast menn að tjónið af völdum þess sé enn meira. Þá er einnig talið að flóð og aurskriður sem komu í kjölfar Rai hafi tekið sinn toll einnig. 

Rauði krossinn hefur þegar hafið neyðarsöfnun til handa fólki á svæðinu en mikið uppbyggingarstarf er nú framundan þar sem heilu bæirnir urðu eyðileggingunni að bráð. 

Rai er öflugasti fellibylurinn sem skellur á Filippseyjum á þessu ári og þó kemur hann utan hins venjulega fellibyljatíma, en þeir eru algengastir í júlí og fram í október.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×