Erlent

Meiri­hluti á þingi fyrir því að svipta Støj­berg þing­sætinu

Atli Ísleifsson skrifar
Ríkisréttur Danmerkur dæmdi Inger Støjberg í sextíu daga óskilorðsbundið fangelsi á mánudaginn.
Ríkisréttur Danmerkur dæmdi Inger Støjberg í sextíu daga óskilorðsbundið fangelsi á mánudaginn. EPA

Meirihluti er á danska þinginu fyrir því að svipta Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra innflytjendamála, þingsætinu í kjölfar dóms ríkisréttar landsins sem dæmdi fyrr í vikunni ráðherrann fyrrverandi í sextíu daga óskilorðsbundið fangelsi.

Þetta var ljóst eftir að þingmenn Enhedslisten lýstu því yfir að þeir telji Støjberg óverðuga að sitja á þingi að því er segir í frétt DR. Áður höfðu þingmenn Venstre, De Radikale, Enhedslisten, SF, Alternativet, Frie Grønne, Liberal Alliance og þrír óháðir þingmenn, þeirra á meðal Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra, lýst því yfir að þeir styddu að Støjberg missi þingsætið.

Þingmenn Jafnaðarmannaflokksins og Íhaldsmanna eiga enn eftir að tilkynna um afstöðu sína í málinu, en nú þegar má ljóst vera að meirihluti sé fyrir því að svipta Støjberg þingsætinu. Þingmenn munu formlega greiða atkvæði um málið á þriðjudaginn næsta.

Lét stía í sundur ungum hælisleitendum

Ríkisréttur Danmerkur dæmdi Støjberg á mánudag í sextíu daga óskilorðsbundið fangelsi en hún var fundin sek af ákæru um að hafa í ráðherratíð sinni látið stía í sundur ungum hælisleitendum. Støjberg var innflytjendamálaráðherra Danmerkur á árunum 2015 til 2019.

Støjberg var talin hafa gefið út ólögmæt fyrirmæli um að láta aðskilja gifta hælisleitendur sem væru yngri en átján ára við komuna til Danmerkur. Tuttugu og þrjú pör voru aðskilin að skipan ráðherrans árið 2016 og voru sum þeirra voru með börn. Sjálf hélt hún því fram að með tilmælunum reyndi hún að verja stúlkur og berjast gegn því að stúlkur undir lögaldri væru giftar.

Fjórir þingmenn verið sviptir þingsætinu frá 1953

Frá árinu 1953 hafa fjórir þingmenn verið sviptir þingmennsku með þessum hætti. Í hópi þeirra var Mogens Glistrup sem missti þingsætið árið 1984 eftir að hafa hlotið þriggja ára fangelsisdóm fyrir skattsvik. 

Þá missti þingmaðurinn Hugo Holm þingsætið árið 1990 eftir að hafa flotið sex mánaða dóm fyrir líkamsárás, ölvunarakstur og tilraun til fjársvika.


Tengdar fréttir

Støj­berg dæmd í sex­tíu daga fangelsi

Ríkisréttur Danmerkur dæmdi í dag Inger Støjberg, fyrrverandi ráðherra innflytjendamála, í sextíu daga óskilorðsbundið fangelsi. Hún var sakfelld af ákæru um að hafa látið stía í sundur ungum hælisleitendum í ráðherratíð sinni.

Réttarhöld yfir fyrrverandi ráðherra innflytjendamála hefjast í Danmörku

Ríkisréttur Danmerkur kemur saman í dag til að rétta yfir Inger Støjberg, fyrrverandi innflytjendamálaráðherra en hún er sökuð um að hafa látið stía í sundur ungum hælisleitendum í ráðherratíð sinni. Þetta er aðeins í annað skipti á heilli öld sem rétturinn er kallaður saman.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×