Erlent

OJ Simpson laus allra mála

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
OJ Simpson er frjáls maður.
OJ Simpson er frjáls maður. Getty/Jason Bean

Fótboltmaðurinn fyrrverandi og leikarinn OJ Simpson er frjáls maður, þrettán árum eftir að hann var sakfelldur fyrir vopnað rán. 

Hinn 74 ára gamli fyrrverandi fótboltamaður og leikari er nú laus allra mála og skilorð yfir honum ekki lengur gilt. Simpson var sakfelldur árið 2008 fyrir vopnað rán sem hann framdi í Las Vegas árið 2007 ásamt fimm öðrum. Simpson afplánaði níu ára fangelsisdóm en hefur verið á skilorði þar til nú. Fréttastofa AP greinir frá. 

Í ráninu réðust Simpson og samverkamenn hans að tveimur mönnum sem versluðu með íþróttaminjar. Simpson hélt því fram að hann hafi aðeins verið að reyna að endurheimta muni sem hann átti og stolið af honum eftir að hann var sýknaður í Los Angeles árið 1994 af morðinu á fyrrverandi eiginkonu sinni Nicole Brown Simpson og vini hennar Ronald Goldman. 

Skilorð hans átti að renna út þann 9. febrúar næstkomandi en skilorðsnefnd í Nevada mat það svo að góð hegðun hans ætti að stytta skilorðið um þrjá mánuði. 

Simpson hefur ekki gefið kost á viðtali eftir þessar nýjustu fregnir og vildi Malcolm LaVergne, lögmaður Simpson í Las Vegas, lítið segja um framhaldið. Því er óvíst hvort hann muni búa áfram í Nevada eða hvort hann hyggist flytja til Flórída, eins og hann ætlaði að gera þegar hann losnaði úr fangelsinu árið 2017. Síðan hann losnaði hefur hann verið búsettur í lokuðu hverfi í Las Vegas þar sem hann hefur stundað golf og látið til sín taka í fótboltaumræðum á Twitter.  


Tengdar fréttir

Einn lög­manna O.J. er dáinn

F. Lee Bailey einn þekktasti lögmaður bandarískrar réttarsögu er látinn, 87 ára að aldri. Bailey var verjandi margra þekktra einstaklinga, þar á meðal O.J. Simpson, Albert DeSalvo, sem er betur þekktur sem Boston Strangler, Patty Hearst og Sam Sheppard.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×