Erlent

Biskup sviptur völdum fyrir að gifast höfundi „satanískrar erótíkur“

Árni Sæberg skrifar
Xavier Novell Goma fær aldrei að bera mítur framar.
Xavier Novell Goma fær aldrei að bera mítur framar. Pascal Deloche/Getty Images

Xavier Novell Goma, yngsti biskup spænsku kaþólsku kirkjunnar, var sviptur völdum á kirkjuþingi í gær. Ástæðan er sú að hann gifti sig en kaþólskum prestum er það harðbannað. Ekki bætti úr sök að eiginkonan er rithöfundur erótískra bóka.

Goma mun þó halda biskupstitlinum en hann má ekki undir neinum kringumstæðum sinna störfum kaþólskra presta á borð við veitingu sakramentsins eða hjónavígslur.

Að sögn The Guardian hefur Goma vakið athygli fyrir stæka íhaldssemi, hann hafi stutt „leiðréttingarmeðferð“ fyrir samkynhneigða og stundað særingar.

Í ágúst síðastliðnum vatt Goma kvæði sínu í kross og sagði af sér. Hann vísaði til persónulegra ástæðna. Skömmu seinna birtist ástæðan á síðum dagblaða. „Ég er ástfanginn og ég vil gera þetta almennilega,“ sagði hann við blaðamenn í kjölfarið.

 Sú heppna er Silvia Caballol, sálfræðingur og höfundur bóka á borð við Helvítið í losta Gabríels (s. El infierno en la lujuria de Gabriel). Á vefsíðu útgefanda hennar er henni lýst sem kraftmiklum höfundi sem veigrar sé ekki við að storka siðferðiskennd lesenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×