Fótbolti

Bentu lög­reglu á mögu­legt vitni í Kaup­manna­hafnar­málinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Leikmenn ganga inn á Parken í Kaupmannahöfn í september 2010. Það var í kringum þennan landsleik sem meint kynferðisbrot átti sér stað.
Leikmenn ganga inn á Parken í Kaupmannahöfn í september 2010. Það var í kringum þennan landsleik sem meint kynferðisbrot átti sér stað. Getty/Lars Ronbog

Nefndin sem skoðaði viðbrögð KSÍ við ábendingum um kynferðislegt ofbeldi tilkynnti lögreglu um mögulegt vitni í umtöluðu hópnauðgunarmáli frá árinu 2010. Þetta kemur fram í skýrslu nefndarinnar sem kynnt var í fyrradag.

Nefndin segist hafa rætt við einstaklinga sem tengdust A-landsliði karla á þeim tíma sem meint brot átti sér stað. Var það í kringum landsleik Íslands og Danmerkur í Kaupmannahöfn árið 2010. Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði og Eggert Gunnþór Jónsson, fyrrverandi landsliðsmaður og leikmaður FH, eru sakaðir um að hafa brotið á ungri konu umrætt kvöld. Málið er á borði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að það var kært í sumar. Báðir hafa gefið skýrslu hjá lögreglu og neita sök.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úttektarnefndin fékk í viðtölum munu einstaklingar sem tengdust A-landsliði karla á þessum tíma í kjölfarið hafa fengið vitneskju um „að eitthvað hefði gerst í ferðinni sem átti ekki að gerast“, eins og einn viðmælandinn orðaði það, og að það hefði lotið að því að tveir landsliðsmenn hefðu verið með stelpu uppi á herbergi hjá sér.

Nefndin segir alla einstaklingana hafa lagt áherslu á að þeir hefðu ekki verið í aðstöðu til að fullyrða neitt um hvað hefði gerst í raun. Að því er varði þá einstaklinga sem úttektarnefndin ræddi við um málið og töldu sig geta tjáð sig um atvik málsins af eigin raun hafi nefndin aftur á móti litið til þeirra upplýsinga sem fram hafa komið opinberlega í fjölmiðlum um að hafin sé sakamálarannsókn á málinu.

„Til þess að raska ekki þeirri rannsókn hefur nefndin komið þeirri ábendingu á framfæri við umrædda einstaklinga og lögreglu að þeir kunni að hafa stöðu vitnis í málinu. Með því er þó ekki tekin nein afstaða til atvika málsins árið 2010 af hálfu nefndarinnar,“ segir í skýrslunni.

Samkvæmt þessu þá hefur nefndin tilkynnt að minnsta kosti einn einstakling til lögreglu vegna málsins og má reikna með að viðkomandi verði kallaður í skýrslutöku.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.