Eiður hætti formlega sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Íslands í fótbolta 1. desember. KSÍ sendi frá sér yfirlýsingu um þá ákvörðun skömmu fyrir miðnætti 23. nóvember, en daginn eftir svöruðu hvorki Vanda né aðrir stjórnarmenn KSÍ spurningum fjölmiðla um aðdraganda og ástæður ákvörðunarinnar.
Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, svaraði þó fyrirspurnum þegar aðeins var liðið á daginn en Vanda sagðist í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun einfaldlega ekki hafa treyst sér til að svara.
Hún sagði það ekki hafa verið samkvæmt tillögu almannatengla að hún svaraði engu um málið. Ákvörðunin um brotthvarf Eiðs var tekin eftir ferð íslenska landsliðsins til Búkarest og Skopje þar sem áfengi var haft við hönd eftir leik við Norður-Makeóníu í Skopje, sem var síðasti leikur Íslands í undankeppni HM. Eiður hafði áður fengið áminningu vegna áfengisneyslu sinnar.
„Ég var alveg buguð eftir þetta. Mér fannst þetta hrikalega leiðinlegt,“ sagði Vanda í Morgunútvarpinu, aðspurð hvers vegna hún hefði ekki svarað fjölmiðlum.
„Ég var sorgmædd í hjartanu mínu, yfir að við hefðum þurft að komast að þessari sameiginlegu niðurstöðu sem við komumst að. Ég hefði bara farið að gráta. Ég bað um að Ómar Smárason færi í viðtöl fyrir mig, svo ég segi nú nákvæmlega eins og þetta var. Ég þurfti aðeins að ná mér,“ sagði Vanda og endurtók að hún hefði ekki fengið neinar leiðbeiningar um að tjá sig ekki um málið:
„Mér leið bara þannig. Ég gat eiginlega ekkert sofið þessa nótt og leið bara ömurlega. Ég treysti mér bara ekki í þetta.
Það var ekkert að segja. Ætlarðu að tjá þig um mál einstaklinga? Nei, ég get ekki gert það. Yfirlýsingin og þau svör sem Ómar Smárason var búinn að gefa sögðu allt sem segja þurfti. Það var því ákvörðunin sem við tókum daginn eftir, halda okkur við það sem var búið að koma fram og gefa út yfirlýsingu, af því að við höfðum hvort sem er sagt allt sem þurfti að segja. Það var engu við það að bæta
Ég var með það alveg á hreinu að ég ætlaði ekki að tjá mig um mál einstaklinga,“ sagði Vanda.