Erlent

Talinn hafa myrt fjöl­skyldu sína eftir að hann falsaði bólu­setningar­vott­orð

Eiður Þór Árnason skrifar
Strax í upphafi var talið að andlátin hafi borið að með saknæmum hætti.
Strax í upphafi var talið að andlátin hafi borið að með saknæmum hætti. Getty/Patrick Pleul

Lík þriggja barna og tveggja fullorðinna fundust á heimili í þýska sambandslandinu Brandenborg á laugardag. Grunar lögreglu að fjölskyldufaðirinn hafi orðið eiginkonu sinni og þremur börnum að bana áður en hann tók eigið líf.

Að sögn lögreglu mátti bæði finna skot- og stungusár á líkunum sem fundust í bænum Königs Wusterhausen, skammt frá Berlín. Börnin voru fjögurra, átta og tíu ára gömul en foreldrarnir báðir fertugir.

Greint var frá því í dag að yfirvöld í Þýskalandi telji að maðurinn hafi framið ódæðisverkið þegar hann óttaðist að félagsmálayfirvöld hygðust taka börnin úr umsjá foreldranna. Hann hafði þá verið staðinn að því að falsa Covid-bólusetningarvottorð fyrir eiginkonu sína.

Að sögn þýsku lögreglunnar fannst bréf við leit á heimili fjölskyldunnar sem talið er að hafi verið ritað af fjölskylduföðurnum. Þar segir að vinnuveitandi konunnar hafi áttað sig á því að um falsað vottorð væri að ræða og hótað málaferlum.

Samkvæmt bréfinu óttuðust hjónin að þau ættu á hættu að verða handtekin og börnin tekin af þeim. Skotvopn fannst í íbúð fjölskyldunnar en að sögn lögreglu voru hvorki maðurinn né konan með skotvopnaleyfi. Vitni sá líkin inn í íbúðinni á laugardag og gerði lögreglu viðvart.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.