Innlent

Aukin neysla mikið áhyggjuefni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra segir það áhyggjuefni hversu mikið áfengis- og fíkniefnaneysla hefur aukist hér á landi. Áfengisneysla hefur aukist um níu prósent á mann á tíu ára tímabili og notkun á ópíóðum hefur aldrei verið meiri.

Áfengisneysla á Íslandi var um 2.207 þúsund alkahóllítrar árið 2020 samanborið við rúmlega 1.708 þúsund lítra árið 2010. Í tölum sem Hagstofan birti í mrogun segir að heildarneysla á íbúa 15 ára og eldri hafi verið 7,41 lítri árið 2020 samanborið við 6,79 lítra árið 2010, en hún náði hámarki árið 2017 þegar hún var 7,75 lítrar. Frá árinu 2010 til 2020 hefur áfengisneysla aukist um 9,1 prósent á hvern einstakling.

„Það er auðvitað áhyggjuefni en um leið mikilvægt að við höfum öflugar meðferðarstofnanir til að styðja við fólk í þessum sjúkdómi,” segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Þá var greint frá því í gær að notkun á ópíóðum hafi aukist gríðarlega, en í ár hafa 250 manns farið í meðferð við slíkri fíkn hjá Sjúkrahúsinu á Vogi. Valgerður Rúnarsdóttir yfirlæknir á Vogi sagðist hafa áhyggjur af því að sjúkrahúsið færi að sligast undan álagi enda hafi fjárframlög ekkert aukist þrátt fyrir stigvaxandi aðsókn. Sala á Jólaálfi SÁÁ hófst í gær en hún sagði það mikla búbót fyrir sjúkrahúsið, þó vissulega sé það áhyggjuefni að sjúkrahúsið þurfi að treysta svo mikið á þá sölu.

„Tekjuöflun hefur verið hluti af starfi SÁÁ og svo auðvitað eru þau með samning um þá mikilvægu þjónustu sem þau veita. Þetta er vel til fundið að vera með Jólaálfinn á aðventunni, vonandi gengur það bara sem allra best vegna þess að þetta er hluti af því að fjármagna þeirra starfsemi,” segir Willum.

„Það er samningur um þessa mikilvægu þjónustu og hann fjármagnar að langstærstum hluta þessa starfsemi. En í gegnum tíðina hefur starfsemin verið með slíka fjáröflun og við erum líka að horfa til þess að það er ákveðið hugarfar og kraftur sem fylgir slíkri starfsemi þannig að ég held að þetta sé bara skemmtilegur þáttur í þeirra starfi.”Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.