Erlent

CNN lætur Chris Cuomo fjúka vegna aðstoðar hans við bróður sinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það þótti mörgum undarlegt að sjá yngri bróðurinn taka viðtal við þann eldri um sóttvarnaaðgerðir í fyrra en CNN vék frá siðareglum blaðamanna vegna kórónuveirufaraldursins.
Það þótti mörgum undarlegt að sjá yngri bróðurinn taka viðtal við þann eldri um sóttvarnaaðgerðir í fyrra en CNN vék frá siðareglum blaðamanna vegna kórónuveirufaraldursins. Getty/Dia Dipasupil

Stjórnendur CNN hafa sagt upp sjónvarpsmanninum Chris Cuomo eftir að í ljós kom að hann aðstoðaði bróður sinn, ríkisstjórann Andrew Cuomo, þegar síðarnefndi var sakaður um kynferðisbrot.

Andrew, sem var ríkisstjóri New York, sagði af sér í ágúst síðastliðnum en Chris hafði þá þegar verið gagnrýndur fyrir að brjóta gegn siðareglum blaðamanna með afskiptum sínum af málinu.

Talsmenn CNN segja gögn sem saksóknaraembættið birti á mánudag hins vegar benda til þess að sú aðstoð sem Chris veitti eldri bróður sínum hafi verið mun umfangsmeiri en áður var talið.

Chris hafði áður viðurkennt að hafa veitt starfsmönnum Andrew ráðgjöf og stjórnendur CNN sögðust skilja að hann væri í erfiðri stöðu. 

Nú væri hins vegar komið í ljós að aðkoma hans hefði verið mun meiri en þeir töldu en í gögnunum er meðal annars að finna fjölda tölvupósta þar sem Chris biðlar til starfsmanna Andrew um að fá að hjálpa til og býðst til að setja sig í samband við aðra fréttamiðla til að afla upplýsinga um nýjar ásakanir á hendur bróður sínum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×