Erlent

Höfundur The Lovely Bones biður manninn sem var dæmdur fyrir að nauðga henni af­sökunar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Alice Sebold er án efa þekktust fyrir skáldsögu sína The Lovely Bones.
Alice Sebold er án efa þekktust fyrir skáldsögu sína The Lovely Bones. Getty/Leonardo Cendamo

Bandaríski rithöfundurinn Alice Sebold hefur beðist afsökunar fyrir að hafa átt þátt í því að maður var ranglega dæmdur fyrir að hafa nauðgað henni árið 1981. Anthony Broadwater var handtekinn og fundinn sekur og varði 16 árum í fangelsi.

Hann var látinn laus árið 1998 en var áfram á skrá yfir dæmda kynferðisbrotamenn. Hinn 22. nóvember síðastliðinn var hann hins vegar hreinsaður af allri sök í kjölfar endurupptöku málsins.

Anthony Broadwater.

Sebold, sem er eflaust þekktust fyrir bók sína The Lovely Bones, skrifaði um nauðgunina í sjálfsævisögunni Lucky. 

Árásin átti sér stað þegar Sebold var 18 ára nemandi við Syracuse University í New York. Mánuðum seinna tilkynnti Sebold lögreglu að hún hefði séð svartan mann úti á götu sem hún taldi vera árásarmanninn.

Broadwater var handtekinn skömmu síðar.

Þrátt fyrir að Sebold benti á annan mann við sakbendingu var Broadwater fundinn sekur á grundvelli framburðar hennar og rannsóknar á hárum sem fundust á Sebold.

Broadwater sagðist hafa grátið gleðitárum þegar hann var hreinsaður af sök á dögunum. Þá sagði hann létti að Sebold hefði beðist afsökunar.

Í afsökunarbeiðni sinni sagðist Sebold harma að Broadwater hefði verið rændur því lífi sem hann hefði getað átt og að engin afsökunarbeiðni gæti breytt því. Þá sagðist Sebold hafa varið síðustu dögum í að reyna að átta sig á því hvernig þetta gat gerst og að hún þyrfti að sætta sig við það að sá sem nauðgaði henni yrði sennilega aldrei fundinn og látinn gjalda fyrir.

Lucky seldist í meira en milljón eintökum og kom Sebold á kortið sem rithöfund. Enn þekktari varð hún hins vegar fyrir The Lovely Bones, sem var kvikmynduð í leikstjórn Peter Jackson. Stanley Tucci var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í myndinni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×