Innlent

Níundi bekkur Hagaskóla verður í Háskólabíói fram að jólum

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Aðeins einn árgangur er eftir í byggingu Hagaskóla. 
Aðeins einn árgangur er eftir í byggingu Hagaskóla.  Vísir/Vilhelm

Skólastjóri Hagaskóla segir stöðuna í skólanum sérstaka um þessar mundir. Aðeins einn árgangur er eftir í húsnæði skólans þar sem mygla hefur fundist í álmum áttunda og níunda bekkjar. Þá er einnig mögulegt að mygla leynist í álmu tíunda bekkjar. Unnið er að endurbótum en ómögulegt er að segja hversu langan tíma það muni taka.

Í gærkvöldi kom í ljós að mygla væri til staðar í hluta Hagaskóla sem hýsir níunda bekk og féll kennsla árgangsins því niður í dag. Strax og málið kom upp var leitað að nýjum stað fyrir bekkinn en kennsla mun hefjast strax á morgun í Hagaskóla. Verður bekkurinn þar fram að jólum. 

Fyrr í mánuðinum fannst mygla í álmu áttunda bekkjar og fer kennsla þeirra nú fram á Hótel Sögu. Ingibjörg Jósefsdóttir, skólastjóri Hagaskóla segir líðan nemenda góða þrátt fyrir allt.

„Auðvitað er svolítið sérstakt að vera í Hagaskóla akkúrat í dag, það er einn árgangur úti á Hótel Sögu og það er einn árgangur heima í dag,“ segir Ingibjörg. „Hér eru rúmlega 600 nemendur í húsi að öllu jöfnu en aðeins 200 í dag, þannig það er ólíkt því sem er að öllu jöfnu.“

Eftir að mygla kom upp í álmu áttunda bekkjar var allt húsnæðið tekið til skoðunar. Við það kom einnig í ljós að rakaskemmdir hafi fundist í álmu tíunda bekkjar og segir Ingibjörg ekki útilokað að mygla leynist einnig þar.

Verkfræðistofan Efla vinnur nú að frekari greiningu á niðurstöðum og endanlegri ástandsskýrslu. Að sögn Ingibjargar er ómögulegt að segja hversu langan tíma endurbætur muni taka og hversu langt þurfi að ganga.

„Þetta er bara svo nýskeð að það þarf bara aðeins lengri tíma til að átta sig á því. Niðurstöður um níunda bekkinn komu bara í ljós í gær. Þannig það er verið að bregðast strax við og síðan verður farið í að finna einhverja lausn til lengri tíma, ef þess þarf,“ segir Ingibjörg.


Tengdar fréttir

Tvö hundruð Hagskælingar nema á Hótel Sögu

Reykjavíkurborg hefur samið við eigendur Hótel Sögu um að leigja af þeim um 1100 fermetra á 2. hæð hótelsins auk aðgangs að sameign. Þar munu um tvö hundruð nemendur í 8. bekk Hagaskóla nema á meðan framkvæmdir fara fram í norðausturálmu skólans hvar myglu hefur orðið vart.

Undirbúa flutning og framkvæmdir vegna myglu í Hagaskóla

Undirbúningur flutnings og framkvæmda vegna myglu í Hagaskóla er hafinn hjá skólastjórnendum. Nemendur í áttunda bekk skólans verða fluttir í tímabundið húsnæði á meðan unnið verður að endurbætum í norðausturálmu skólans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×