Innlent

„Ég hef alltaf látið umhverfismál mig varða“

Árni Sæberg skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson sat fyrir svörum á Bessastöðum í dag.
Guðlaugur Þór Þórðarson sat fyrir svörum á Bessastöðum í dag. Stöð 2

Guðlaugur Þór Þórðarson, fráfarandi utanríkisráðherra og nýr ráðherra umhverfis- og loftslagsmála, segist spenntur fyrir því að takast á við umhverfismál í sínu nýja ráðuneyti. Hann hafi reynslu af málaflokknum eftir utanríkisráðherratíð sína.

„Ég hef alltaf látið umhverfismál mig varða, alveg frá því að ég byrjaði í stjórnmálum. Þannig að ég hef alltaf haft augun á þessum málaflokki,“ sagði Guðlaugur Þór á Bessastöðum í dag.

Hann segir sitt fyrsta verk sem umhverfis- og loftslagsmálaráðherra verði að setjast niður með starfsfólki ráðuneytisins. „Maður gerir ekkert einn og það er afskaplega mikilvægt að vera með góðu fólki.

Krefjandi en skemmtileg verkefni framundan

Guðlaugur Þór segir engan vafa leika á því að það verði krefjandi að takast á við komandi verkefni og að markmið stjórnarsáttmálans í loftsslagsmálum séu háleit.

Þar segir að vilji nýrrar stjórnar sé að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn loftslagsvánni og uppfylli ákvæði Parísarsamningsins.

„Við munum setja okkur sjálfstætt landsmarkmið um 55 prósent samdrátt á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005. Lögð verður áhersla á markvissar og metnaðarfullar aðgerðir til að draga úr losun vegna landnotkunar og hraða orkuskiptum á öllum sviðum. Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum eigi síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja,“ segir í sáttmálanum.

Þá verður það á könnu Guðlaugs Þórs að koma þjóðgarðsmálum og rammaáætlun heilum í höfn. „Eigum við ekki bara að segja að þetta séu krefjandi og skemmtileg verkefni,“ segir hann.

Reynslumikill í faginu

Guðlaugur Þór segist áður hafa tekist á við umhverfis- og loftslagsmál, enda séu þau og hafi verið hluti af utanríkisstefnu Íslands síðustu ár.

Málaflokkurinn kalli á áframhaldandi samstarf milli ráðuneyta til að mynda í tengslum við norðurslóðir. „Ég er bara fullur tilhlökkunar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, nýr ráðherra umhverfis- og loftslagsmála, að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.