Hann er ekki löglærður en sagði að það myndi ekki halda aftur af sér.
„Þegar maður þekkir veikleika sína þá verður maður sterkari. Þannig að ég fæ gott fólk með mér sem hefur getu og þekkingu til að hjálpa mér á þeim vettvangi,“ sagði Jón.
Hann vildi ekki tjá sig einstaka málaflokka og sagði mörg brýn málefni bíða í ráðuneytinu. Það væri efnismikið þar væru margir málaflokkar sem þyrfti að sinna.
Varðandi málefni innflytjenda sagði Jón að það þyrfti að bæta umgjörðina um þau.
„Þetta er í raun óþolandi staða sem oft hefur myndast. Forveri minn í embætti hefur einmitt verið að vinna að leiðum til að gera kerfið skilvirkara og ég mun halda áfram á þeirri vegferð.“
Mikil og stór verkefni
Eftir átján mánuði, að hámarki, mun Guðrún Hafsteinsdóttir taka við ráðuneytinu af Jóni. Hann segist ekki vera að velta því fyrir sér hvort hann muni fá annað ráðuneyti í kjölfar þess.
„Þetta eru mikil og stór verkefni sem ég er að takast á hendur núna. Þau munu eiga hug minn allan næstu átján mánuði og svo kemur það bara í ljós hvernig skipast í lið þegar gerðar verða breytingar.“
Hann sagðist þakklátur fyrir stuðninginn sem hann hafi fengið frá þingflokki Sjálfstæðisflokksins og formanni.
Um stjórnarsáttmálann sagði Jón hann bera keim að þriggja flokka stjórn kæmi að honum.
„Það er margt í þessum stjórnarsáttmála sem maður hefði, ef maður hefði vald og umboð til að skrifa þetta einn, hefði verið með öðrum hætti. En mér líst ágætlega á þessar málamiðlanir sem hafa verið gerðar og ég er bjartsýnn á þetta ríkistjórnarsamstarf.“