Innlent

Þetta ætlar ríkis­stjórnin að gera á kjör­tíma­bilinu

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skoða nýjan stjórnarsáttmála sinn.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra skoða nýjan stjórnarsáttmála sinn. vísir/vilhelm

Lofts­lags­mál, heil­brigðis­mál og tækni­breytingar eru einna fyrir­ferða­mestu mála­flokkarnir í stjórnar­sátt­mála nýrrar ríkis­stjórnar sem kynntur var í dag. Miklum úr­bótum er lofað í heil­brigðis­málum þar sem skipa á fag­lega stjórn yfir Land­spítalann að nor­rænni fyrir­mynd.

Í sátt­málanum má svo finna gömul mark­mið um orku­skipti og kol­efnis­hlut­leysi en einnig metnaðar­full mark­mið um að auka traust al­mennings á mikil­vægi tjáningar­frelsis.

Breytingar á spítalanum

Ein stærsta breytingin í heilbrigðismálum verður sú að skipuð verður fagleg stjórn yfir Landspítalann að norrænni fyrirmynd.

Í sátt­málanum segir að Sjúkra­tryggingar Ís­lands verði efldar sem kaupandi og kostnaðar­greiðandi heil­brigðis­þjónustu fyrir hönd ríkisins og ætlar ríkis­stjórnin sér að halda á­fram að draga úr greiðslu­þátt­töku sjúk­linga, með sér­staka á­herslu á við­kvæma hópa. Heilsu­gæslan verður styrkt enn frekar og heilsu­gæslu­stöðvum fjölgað til að minnka álag á aðra við­komu­staði, til dæmis bráða­mót­tökuna.

Að­gengi að sér­fræði­þjónustu fyrir lands­byggðina verður einnig bætt og þá ætlar ríkis­stjórnin að efla geð­heil­brigðis­þjónustu, sér­stak­lega fyrir börn og ung­menni.

Aldraðir og ör­yrkjar fá að vinna

Að­gerðir fyrir aldraða eru einnig nokkuð fyrir­ferða­miklar í sátt­málanum en Katrín Jakobs­dóttir nefndi öldrun þjóðarinnar og þau vanda­mál sem henni hefðu fylgt sem vanda­mál sem ríkis­stjórnin ætlaði að leggja sér­staka á­herslu á þegar hún kynnti sátt­málann í dag.

Mark­miðið er að auð­velda eldra fólki að búa sem lengst heima með aukinni þjónustu við það, dag­þjálfun og þá kemur tækni og ný­sköpun einnig inn í þennan mála­flokk. Sporna á sér­stak­lega gegn fé­lags­legri ein­angrun og ein­mana­leika aldraðra.

Einnig á að liðka fyrir þátt­töku og endur­komu ein­stak­linga með skerta starfs­getu á vinnu­markað þannig að fólk hafi fjár­hags­legan hag af at­vinnu­þátt­töku.

Þá verður eldra fólki gert kleift að vera virkir þátt­tak­endur á vinnu­markaði, til dæmis með auknum sveigjan­leika í starfs­lokum, alla­vega hjá hinu opin­bera. Al­manna­trygginga­kerfið verður endur­metið og frí­tekju­mark at­vinnu­tekna tvö­faldað um næstu ára­mót.

Þá á einnig að breyta ör­orku­líf­eyris­kerfinu og ein­falda það til muna; draga úr tekju­tengingum og gera það skil­virkara, að því sem segir í sátt­málanum. Einnig á að bæta af­komu ör­orku­líf­eyris­þega yfir höfuð og þá er sér­stak­lega horft á þá sem standa verst. Kerfinu verður breytt í skrefum og fá þeir sem þegar eru með fullt ör­orku­mat þegar það verður inn­leitt val um það í hvoru kerfi þeir verða.

Ný Mann­réttinda­stofnun verður þá stofnuð sem á að halda utan um mann­réttinda­mál á Ís­landi. Samningur Sam­einuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður einnig lög­festur.

Hér má lesa stjórnarsáttmálann í heild sinni:

Hálendisþjóðgarður í mýflugumynd

Sérstaka athygli vekur í sáttmálanum að þar virðist fallið frá þeirri hugmynd um Hálendisþjóðarð sem vinstri græn hafa talað fyrir í áraraðir. 

Þar segir að stofnaður verði þjóðgarður á „þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu“ og það með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Hann verður þannig væntanlega stækkaður um það sem nemur þeim friðlýstu svæðum í kring um hann og svo virðist sem ekki sé mikill vilji til að friðlýsa stærra svæði á hálendinu.

„Ef maður er hættur að komast áfram, getur verið ágætt að stíga aðeins aftur á bak,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við fréttastofu eftir kynninguna á stjórnarsáttmálanum í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn væri að taka yfir umhverfisráðuneytið.

Guðlaugur Þór Þórðarson fer úr utanríkisráðuneytinu og verður ráðherra umhverfis- og loftslagsmála.

Guðlaugur Þór Þórðarson mun halda utan um umhverfis- og loftslagsmálin næstu fjögur árin.Vísir/Vilhelm

Í fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna náðist ekki samkomulag um Hálendisþjóðgarðinn. 

Aðspurður um það hvort minnka eigi mögulegan hálendisþjóðgarð í ljósi þess að stækka eigi Vatnajökulsþjóðgarð sagði Bjarni: „Við tökum tvö skref aftur á bak og byrjum með aðeins, hvað eigum við að segja, umfangsminni hugmyndir um að grípa til friðana og stofnunar þjóðgarðs á hálendinu. Engu að síður er verið að vinna áfram í þá átt.“ 

Bjarni sagði einnig að verið væri að reyna að læra af því ferli sem hefði átt sér stað. Það hefðu ekki bara verið stjórnarflokkarnir sem hefðu verið ósammála. „Við erum í samtali við samfélagið og það voru margar athugasemdir sem við erum að horfa til og hlusta eftir.“

Tæknin á að leysa lofts­lags­vandann

„Vísinda­leg þekking er undir­staða allra að­gerða stjórn­valda í lofts­lags­málum,“ segir í lofts­lags­kafla stjórnar­sátt­málans og það er greini­legt því stærstur hluti hans fer í hug­myndir um að efla ný­sköpun, rann­sóknir og at­vinnu­líf til að finna grænar lausnir og stuðla að minni losun og orku­skiptum á landinu.

Ríkis­stjórnin heldur á­fram vinnu sinni við að ná hér kol­efnis­hlut­leysi og orku­skiptum fyrir árið 2040 og þá er einnig sett sjálf­stætt mark­mið um að ná 55 prósenta sam­drátt í losun á beinni á­byrgð Ís­lands fyrir árið 2030 miðað við árið 2005.

Stjórn­völd ætla sér að ein­falda ferlið fyrir sveitar­fé­lög og at­vinnu­lífið og setja sér­stök losunar­mark­mið í nokkrum á­föngum fyrir hvern geira. Þar verður bæði já­kvæðum og nei­kvæðum hvötum beitt; það er að segja að fjár­fest verður í grænum verk­efnum en gjald­töku beitt á losun gróður­húsa­loft­tegunda. Sér­stak­lega er tekið fram að ríkis­stjórnin muni ekki gefa út leyfi til olíu­leitar í efna­hags­lög­sögu Ís­lands.

Ætla sér að klára þriðja áfanga rammans

Þá ætlar nýja ríkisstjórnin sér að ljúka við þriðja áfanga rammaáætlunar en sú vinna gekk ekki á síðasta kjörtímabili. Þá var þriðji áfanginn lagður fram þrisvar sinnum fyrir þingið en aldrei tókst að klára hann. Þremur síðustu umhverfisráðherrum hefur ekki tekist að koma áfanganum í gegn um þingið.

Í þriðja áfanganum verður kostum í biðflokki fjölgað og þá verða lög um verndar- og orkunýtingaráætlun endurskoðuð frá grunni. 

Fiskeldi skaði ekki laxastofninn

Heildstæð stefna verður mótuð á kjörtímabilinu um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. Þar verður lögð sérstök áhersla á atvinnusköpun og mikilvægi þess að fiskeldi á Íslandi byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villta laxastofna. 

Vinstri græn munu leiða þá vinnu en Svandís Svavarsdóttir fer úr heilbrigðisráðuneytinu og yfir í nýtt ráðuneyti matvæla-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.

Svandís Svavarsdóttir mun taka við nýju matvæla-, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.Vísir/Vilhelm

Hún mun einnig leiða vinnu við að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu þar sem markmiðið er að styrkja og fjölga stoðum landbúnaðar sem er sjálfbær í þágu loftslags- og umhverfismála.

Nýr þjóðar­leik­vangur og meiri raf­í­þróttir

Nýja stjórnin ætlar sér þá að setja stefnu um öflugar raf­í­þróttir á Ís­landi auk þess sem allt raf­í­þrótta­starf verður eflt til muna. Þá verður á­fram unnið að upp­byggingu þjóðar­hallar inni­í­þrótta og þjóðar­leik­vanga.

Önnur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur


 • Katrín Jakobsdóttir - forsætisráðherra - óbreytt frá fyrsta ráðuneytu Katrínar
 • Bjarni Benediktsson - fjármálaráðherra - óbreytt frá fyrsta ráðuneyti Katrínar
 • Sigurður Ingi Jóhannsson - samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra - óbreytt frá fyrsta ráðuneytu Katrínar
 • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir - utanríkisráðherra - var áður ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
 • Willum Þór Þórsson - heilbrigðisráðherra - kemur nýr inn
 • Jón Gunnarsson - dómsmálaráðherra - kemur nýr inn en var samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra árið 2017 í skammlífri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar *Guðrún Hafsteinsdóttir mun taka við af Jóni þegar líður á kjörtímabilið.
 • Lilja Dögg Alfreðsdóttir - viðskipta- og menningarmálaráðherra - var áður menntamálaráðherra
 • Svandís Svavarsdóttir - matvæla- sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra - var áður heilbrigðisráðherra
 • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir - nýsköpunar-, iðnaðar- og háskólaráðherra - var áður dómsmálaráðherra
 • Guðlaugur Þór Þórðarson - umhverfis- og loftslagsmálaráðherra - var áður utanríkisráðherra
 • Guðmundur Ingi Guðbrandsson - félags- og vinnumarkaðsráðherra - var áður umhverfisráðherra
 • Ásmundur Einar Daðason - skóla- og barnamálaráðherra - var áður félagsmálaráðherra.

Tengd skjölAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.