Liverpool valtaði yfir dýrlingana á heimavelli

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Virgil Van Dijk skoraði í dag
Virgil Van Dijk skoraði í dag EPA-EFE/PETER POWELL

Liverpool vann auðveldan 4-0 sigur á heimavelli gegn Southampton í dag í leik sem varð aldrei spennandi. Southampton börðust hetjulega en máttu sín lítils gegn gæðunum sem búa í framlínu Liverpool.

Fyrir leikinn sat Southampton í 14. sæti deildarinnar með 14 stig en Liverpool var í því þriðja með 25 stig.

Liverpool fékk draumabyrjun á leiknum en Diego Jota skoraði strax á 2. mínútu. Sadio Mane og Andy Robertson léku þá glæsilega saman á vinstri vængnum, Robertson komst upp að endamörkum og renndi boltanum á Jota sem gerði engin mistök og skoraði. 1-0 og útlitið virkilega dökkt fyrir Southampton.

Jota var svo aftur á ferðinni á 32. mínútu. Að þessu sinni voru það Mohammed Salah og Jordan Henderson sem prjónuðu sig í gegn hægra megin. Salah lagði boltann á Jota sem skoraði og von Southampton að fjara út. Southamption reyndi talsvert að pressa í fyrri hálfleiknum sem gekk ágætlega en þegar að Liverpool braut pressuna var alltaf hætta.

Einungis fimm mínútum síðar þá skoraði Thiago Alcantara með skoti úr teignum sem hafði viðkomu í varnarmanni. 3-0 í hálfleik og leikurinn í rauninni búinn.

Síðari hálfleikurinn var í raun og veru bara formsatriði fyrir Liverpool og Virgil Van Dijk skoraði fjórða markið á 52. mínútu eftir sendingu frá Trent Alexander Arnold. Lokatölur 4-0.

Liverpool fór með sigrinum upp fyrir Manchester City í annað sæti deildarinnar en Southampton situr enn í 14. sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira