Erlent

Telja ekki á­stæðu til að fagna þakkar­gjörðar­há­tíðinni

Kjartan Kjartansson skrifar
Frumbyggjar á bæn við minnisvarða um fórnarlömb fjöldamorðs á Wampanoag-frumbyggjum í Plymouth árið 2007.
Frumbyggjar á bæn við minnisvarða um fórnarlömb fjöldamorðs á Wampanoag-frumbyggjum í Plymouth árið 2007. AP/Lisa Poole

Bandarískir frumbyggjar ætla að minnast þakkargjörðarhátíðarinnar í dag með því að koma saman í bænum Plymouth í Massachusetts þar sem enskir landtökumenn tóku fyrst land. Þar ætla þeir að syrgja aldalanga kynþáttahyggju og ofbeldi sem þeir hafa mátt þola.

Þakkargjörðarhátíðin er haldin í Bandaríkjunum í dag. Hún er rakin til uppskeruhátíðar sem fyrstu ensku nýlendubúarnir í Plymouth fögnuðu með Wampanoag-ættbálknum árið 1621. Evrópubúar áttu síðar eftir að leggja undir sig alla Norður-Ameríku og hafast afkomendur frumbyggja nú við á verndarsvæðum á víð og dreif um Bandaríkin.

„Við frumbyggjaþjóðir höfum enga ástæðu til þess að fagna komu pílagrímanna,“ segir Kisha James sem kemur frá Aquinnah Wampaoag og Oglala Lakota ættbálkunum við AP-fréttastofuna. 

Hún segist vilja fræða fólk um að sögur um fyrstu þakkargjörðarhátíðina sem er kennd í skólum byggist á engu nema lygum. Wampanoag og aðrir frumbyggjar hafi sannarlega ekki lifað hamingjusamlega frá því að pílagrímarnir námu land.

Þakkargjörðarhátíðin sé frumbyggjum sorgardagur þar sem þeir minnast milljóna forfeðra sinna sem evrópskir nýlendubúar sem birtust óboðnir myrtu.

Viðburðurinn í Plymouth hefur verið árviss viðburður frá 1970. Frumbyggjarnir safnast saman við Plymouth-klett þar sem pílagrímarnir komu að landi. Þar ætla þeir að berja bumbur, biðja og fordæma kerfislæga kynþáttahyggju, kynjamisrétti, nýlendustefnu, andúð á samkynhneigðum og eyðileggingu jarðar í nafni hagnaðar.

Í ár ætla þeir sérstaklega að minnast ungra frumbyggja sem voru vistaðir í heimavistarskólum á vegum alríkisstjórnarinnar þar sem reynt var að „aðlaga“ þá samfélagi hvítra manna, jafnt í Bandaríkjunum og í Kanada. Hundruð líka fundist nýlega við byggingu sem áður hýsti slíkan skóla í Kanada.


Tengdar fréttir

Spænskir hægrimenn fýldir yfir gagnrýni á Kólumbus

Kergja ríkir nú á meðal spænskra hægrimanna vegna gagnrýni á nýlendustefnu þeirra og Kristófer Kólumbus. Þeir eru einnig ósáttir við að Bandaríkjaforseti hafi viðurkennt voðaverk gegn frumbyggjum Ameríkanna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.