Erlent

Hægri­öfga­mönnum gert að greiða bætur vegna Char­lottes­vil­le-ó­eirðanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Hvítir þjóðernissinnar, nýnasistar og Kú Klúx Klanliðar söfnuðust saman í Charlottesville í ágúst 2017. Áður en yfir lauk drap einn þeirra unga konu og stórslasaði fjölda annarra þegar hann ók bíl inn í hóp gagnmótmælenda.
Hvítir þjóðernissinnar, nýnasistar og Kú Klúx Klanliðar söfnuðust saman í Charlottesville í ágúst 2017. Áður en yfir lauk drap einn þeirra unga konu og stórslasaði fjölda annarra þegar hann ók bíl inn í hóp gagnmótmælenda. AP/Steve Helber

Kviðdómur í Virginíu gerði fimm samtökum hvítra þjóðernissinna og tólf skipuleggjendum samkomu þeirra í borginni Charlottesville í ágúst árið 2017 að greiða samtals 26 milljónir dollara, jafnvirði um 3,4 milljarða króna, í miskabætur vegna óeirða sem brutust út í kjölfar hennar.

Þeir stefndu í málinu eru sumar þekktustu leiðtogar bandaríska hægriöfgamanna eins og Jason Kessler, aðalskipuleggjandi samkomunnar sem gekk undir heitinu „Sameinum hægrið“ og Richard Spencer, sem er eignaður heiður af því að finna upp á hugtakinu „hitt hægrið (e. alt right)“ sem ávarpaði samkomuna. Að nafninu til var samkomunni ætlað að mótmæla því að stytta af leiðtoga gömlu Suðurríkjanna yrði fjarlægð.

Spencer þessum var meðal annars snúið við á Keflavíkurflugvelli þegar hann var á leið á viðburð öfgamanna í Svíþjóð árið 2018.

Til harðra óeirða kom þegar sló í brýnu á milli hægriöfgamannanna og hóps fólks sem mótmælti þeim. Kona á fertugsaldri úr röðum gagnmótmælenda var drepin þegar ungur nýnasisti ók bíl sínum inn í hóp þeirra í þröngi götu. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Málið gegn öfgamönnunum var einkamál sem byggði á lögum sem var ætlað að verja svarta Bandaríkjamenn fyrir Kú Klúx Klan. Almennir borgarar geta höfðað mál gegn þeim sem þeir telja að hafi brotið á réttindum fólks og lagt á ráðin um það.

Málshöfðendur lögðu fram mikið magn gagna, þar á meðal færslur á samfélagsmiðlum og smáskilaboð öfgamannanna þar sem þeir skipulögðu samkomuna og ræddu um möguleikann á ofbeldi.

Jason Kessler, einn leiðtoga hvítra þjóðernissinna í Bandaríkjunum (með fána) var dæmdur til að greiða miskabætur vegna samkomunnar í Charlottesville fyrir fjórum árum.AP/Jacquelyn Martin

Kviðdómur taldi að öfgamennirnir hefðu gerst sekir um að leggja á ráðin um að ógna, áreita eða beita fólk ofbeldi á samkomunni í Charlottesville. Þeir gengu meðal annars fylktu liði um borgina og hrópuðu slagorð eins og „gyðingar munu ekki skipta okkur út“.

Verjendur öfgamannanna sögðu þá saklausa og að þeir hefðu ekki lagt á ráðin um ofbeldið. Þeir hafi ekki þekkt unga manninn sem ók á gagnmótmælendurna og þeir hafi því ekki getað vitað hvað hann ætti eftir að gera.

Þá töldu þeir hatursorðræðu þeirra njóta verndar undir tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár Bandaríkjanna. Washington Post segir að við réttarhöldin hafi sumir þeirra stefndu meðal annars notað níðyrði um svart fólk, lýst aðdáun á Adolf Hitler og haldið á lofti rasískum gervivísindakenningum. Þá kallaði einn verjendanna lögmann sækjenda níðyrði um gyðinga.

Donald Trump, fyrrverandi forseti, sætti harðri gagnrýni eftir að hann þráaðist lengi við að fordæma hvítu öfgamennina í Charlottesville. Það gerði hann loks með semingi en lýsti síðan þátttakendum í samkomu þeirra sem „fínu fólki“.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×