Innlent

Þekktur leið­togi hvítra þjóð­ernis­sinna segist hafa verið stöðvaður á Kefla­víkur­flug­velli

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Richard Spencer er kallaður faðir „alt-right“-hreyfingarinnar í Bandaríkjunum.
Richard Spencer er kallaður faðir „alt-right“-hreyfingarinnar í Bandaríkjunum. vísir/getty
Richard Spencer, þekktur leiðtogi hvítra þjóðernissinna í Bandaríkjunum, var í vikunni stöðvaður á Keflavíkurflugvelli þar sem hann millilenti á leið sinni til Svíþjóðar.

Spencer segir frá þessu í viðtali við AP-fréttastofunni og greinir frá því að honum hafi verið haldið á Keflavíkurflugvelli í ríflega þrjá klukkutíma áður en honum var gert að snúa aftur til Bandaríkjanna á miðvikudag. Hann komst því aldrei til Svíþjóðar þar sem hann átti að tala á ráðstefnu.

Að sögn Spencer var honum sagt af yfirvöldum hér að þau hefðu stöðvað för hans samkvæmt tilmælum frá pólskum yfirvöldum. Í nóvember síðastliðnum var greint frá því í pólskum fjölmiðlum að stjórnvöld í Póllandi hefðu bannað Spencer að koma til þeirra 26 landa sem eru innan Schengen-svæðisins næstu fimm árin.

„Þetta er algjörlega fáránlegt. Ég er ekki að reyna að fremja nokkurn glæp,“ er haft eftir Spencer á vef AP.

Sjá einnig: Hitt hægrið á sviðið í Bandaríkjunum

Talsmaður lögreglunnar í Póllandi hafði ekki heyrt af neinu máli tengdu Spencer þegar AP leitaði eftir viðbrögðum lögreglu vegna málsins og þá hafði fréttastofunni ekki borist svar frá leyniþjónustu landsins við fyrirspurn sinni um Spencer.

Árið 2014 var Spencer meinað að koma inn á Schengen-svæðið næstu þrjú árin eftir að hann var handtekinn í Ungverjalandi þar sem hann var að skipuleggja ráðstefnu.

Spencer er kallaður faðir „alt-right“-hreyfingarinnar í Bandaríkjunum sem á íslensku gæti útlagst sem hitt hægrið. Kjarni hugmyndafræði hreyfingarinnar er afneitun á fjölmenningu og leiðandi öflum íhaldsmanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×