Erlent

Ein ötulasta bar­áttu­kona fyrir réttindum hin­segin fólks á Norður­löndum látin

Atli Ísleifsson skrifar
Kim Friele varð 86 ára.
Kim Friele varð 86 ára. Wikipedia Commons

Hin norska Kim Friele, ein ötulasta baráttukonan fyrir réttindum hinsegin fólks á Norðurlöndum, er látin, 86 ára að aldri.

Norskir fjölmiðlar hafa eftir Else Hendel að hún hafi andast í gærkvöldi. Handel er frænka Wenche Lowzow, sem var eiginkona Friele, en Lowzow lést árið 2016.

Kim Friele, sem hét Karen-Christine Friele réttu nafni, fæddist í maí 1935 í Bergen. Hún barðist um margra áratuga skeið fyrir bættum réttindum hinsegin fólks og átti mikinn þátt í því að lagabreytingar voru gerðar í Noregi árið 1972 sem fólu í sér að kynlíf tveggja karlmanna varðaði ekki lengur við lög.

Wenche Lowzow, eiginkona Friele, varð fyrsti opinberlega samkynhneigði þingmaðurinn í Noregi. Hún var þingmaður Høyre á árunum 1977 til 1985, og skráði sig í sambúð með Friele árið 1993.

Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, minnist Friele á samfélagsmiðlum í morgun og segir sannkallaðan risa hafa fallið frá. Segist hann fullur þakklætis í garð hennar og að hún hafi gert samfélagið betra með sinni baráttu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.