Enski boltinn

Woodward íhugar að vera áfram hjá United

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Manchester United gætu þurft að bíða eitthvað lengur eftir því að losna við Ed Woodward.
Stuðningsmenn Manchester United gætu þurft að bíða eitthvað lengur eftir því að losna við Ed Woodward. getty/Simon Stacpoole

Ed Woodward, hinn óvinsæli stjórnarformaður Manchester United, gæti frestað starfslokum sínum hjá félaginu til að hjálpa til við að finna nýjan knattspyrnustjóra.

United er í stjóraleit eftir að Ole Gunnar Solskjær var látinn taka pokann sinn í gær. Michael Carrick stýrir United gegn Villarreal í Meistaradeild Evrópu á morgun og þar til nýr stjóri finnst.

Í apríl var greint frá því að Woodward myndi hætta störfum hjá United í lok árs. Hann hefur unnið fyrir United síðan 2005 og verið stjórnarformaður félagsins frá 2012. 

Woodward er ekki í miklum metum hjá stuðningsmönnum United og þeir hoppa varla hæð sína í loft upp yfir þeim fréttum að hann íhugi að vera lengur í starfi. Sky Sports greindi fyrst frá.

Solskjær er fjórði stjórinn sem Woodward rekur. Hann lét David Moyes fara 2014, Louis van Gaal 2016 og José Mourinho 2018.

Meðal stjóra sem hafa verið orðaðir við United eru Mauricio Pochettino, Erik ten Haag, Ralf Rangnick, Laurent Blanc og Brendan Rodgers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×