Enski boltinn

Neyðarfundur eftir niðurlæginguna gegn Watford - Solskjær rekinn og Zidane boðið gull og grænir skógar?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Að hirða starfið af Solskjær?
Að hirða starfið af Solskjær? vísir/getty

Manchester United tapaði á niðurlægjandi hátt fyrir nýliðum Watford í ensku úrvalsdeildinni í gær og hafa forráðamenn félagsins miklar áhyggjur af stöðu liðsins.

Jadon Sanco, Raphael Varane og Cristiano Ronaldo gengu í raðir Man Utd síðasta sumar en spilamennska liðsins á tímabilinu hefur verið afar döpur og fannst mörgum taka steininn úr þegar liðið steinlá fyrir Watford, 4-1, í gær.

Samkvæmt enska dagblaðinu Times var aðalstjórn félagsins boðuð til fundar um leið og flautað var til leiksloka á Vicarage Road og hófst fundurinn klukkutíma síðar. Framtíð Ole Gunnar Solskjær, stjóra liðsins, er í mikilli óvissu og jafnvel talið líklegt að niðurstaða fundarins hafi verið sú að reka Norðmanninn.

Blaðamaðurinn virti, Fabrizio Romano, fullyrti rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi að búið væri að taka ákvörðun um að reka Solskjær. Aðeins ætti eftir að fá staðfestingu frá Joel Glazer áður en félagið myndi senda frá sér tilkynningu.

Engin tilkynning hefur enn verið gefin út af félaginu og hafa helstu fjölmiðlar Englands ekki heldur staðfest brottreksturinn.

Solskjær tók við liðinu af Jose Mourinho þann 19.desember 2018. Honum hefur ekki tekist að vinna titil í stjóratíð sinni á Old Trafford.

Samkvæmt heimildum Times hafa æðstu stjórnendur Man Utd tekið ákvörðun um að setja aukinn kraft í viðræður við Zinedine Zidane og hefur Glazer fjölskyldan, sem á félagið, veitt stjórnarmönnum heimild til að bjóða Zidane stjarnfræðilegan launapakka fyrir að taka við liðinu.

Zidane hætti þjálfun Real Madrid síðasta vor en hann hefur tvisvar sinnum stýrt liðinu til sigurs í spænsku úrvalsdeildinni og unnið Meistaradeild Evrópu í þrígang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×