Meðal annars ræddi Klopp skoðun sína á landsleikjahléum en alls meiddust fjórir leikmenn liðsins í landsliðshléinu sem var að ljúka.
„Ég hata landsleikjahlé, ég hefði viljað spila helgina eftir tapið gegn West Ham United,“ sagði Klopp aðspurður hvort landsleikjahléið hefði komið á góðum tíma.
„Hléið hjálpaði okkur ekki neitt þegar kemur að meiðslum í hópnum,“ sagði Þjóðverjinn skapilli á fundi dagsins.
Jordan Henderson, Andy Robertson, Divock Origi og Sadio Mané meiddust allir í verkefnum með landsliðum sínum á undanförnum dögum. Svo virðist sem Origi og Mané séu búnir að jafna sig og verði klárir í bátana er Liverpool mætir Skyttunum.
„Hvorki Henderson né Robertson hafa æft með liðinu, þeir hafa verið í endurhæfingu. Við munum bíða eins lengi og hægt er með að taka ákvörðun hvort þeir geti spilað á morgun eður ei,“ sagði Klopp að endingu.
Liverpool situr sem stendur í 4. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 22 stig að loknum 11 umferðum. Arsenal er sæti neðar með 20 stig og gæti því farið upp fyrir Liverpool með sigri í leik liðanna á morgun.