Innlent

Slysið við Látra­vatn sjöunda and­látið í um­ferðinni á árinu

Atli Ísleifsson skrifar
Banaslysið um helgina varð á Örlygshafnarvegi sem liggur úr að Látrabjargi.
Banaslysið um helgina varð á Örlygshafnarvegi sem liggur úr að Látrabjargi. Vísir/Vilhelm

Sjö hafa látist í umferðinni hér á landi það sem af er ári. Slysið á Örlygshafnarvegi, skammt frá Látravatni við utanverðan Patreksfjörð, um helgina var sjötta umferðarslysið á árinu þar sem maður lést.

Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum, segir í samtali við Vísi að sá sem lést í slysinu við Látravatn hafi verið Íslendingur en að annars sé ótímabært að veita frekari upplýsingar. Unnið sé að rannsókn þar sem verið sé að reyna að tímasetja slysið og sömuleiðis kanna hvernig aðstæður hafi verið á veginum þegar slysið varð.

Lögregla á Vestfjörðum greindi frá því síðdegis í gær að fyrr um daginn hafi vegfarandi komið að ökumanni látnum í bíl sínum. Virtist sem bíllinn hafi runnið út af veginum og oltið að minnsta kosti eina veltu þar til hann staðnæmdist. Hinn látni var einn í bílnum.

Beita þurfti klippum og öðrum viðeigandi búnaði til að losa ökumanninn úr bílflakinu, að því er segir í tilkynningu frá lögreglu.

Þrjú banaslys hafa verið í umferðinni hér á landi á síðustu dögum. Þannig lést ökumaður rafhlaupahjóls á stíg við á mótum Kringlumýrarbrautar og Sæbrautar í síðustu viku og þá lést karlmaður á fertugsaldri í umferðarslysi í Kjós fyrr í mánuðinum.


Tengdar fréttir

Fannst látinn í bifreið skammt frá Látravatni

Ökumaður fannst látinn í bifreið skammt frá Látravatni við Patreksfjörð á ellefta tímanum í morgun. Vegfarandi kom að bifreiðinni sem hafði oltið út af Örlygshafnarvegi. Ökumaðurinn var einsamall í bílnum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×