Íslenski boltinn

Arna Sif aftur til Vals

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arna Sif Ásgrímsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við Val.
Arna Sif Ásgrímsdóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við Val. vísir/hulda margrét

Arna Sif Ásgrímsdóttir er gengin í raðir Íslandsmeistara Vals frá Þór/KA. Hún þekkir vel til hjá Val eftir að hafa leikið með liðinu árin 2016 og 2017.

Arna Sif lék fimmtán leiki með Þór/KA í Pepsi Max-deildinni á síðasta tímabili. Hún hefur alls leikið 227 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað fjörutíu mörk. Arna Sif varð Íslandsmeistari með Þór/KA 2012 og var þá fyrirliði liðsins.

Auk þess að spila með Þór/KA og Val hefur Arna Sif, sem er 29 ára, leikið með Kopparbergs/Gautaborg í Svíþjóð, Verona á Ítalíu og Glasgow City í Skotlandi. Hún varð skoskur meistari með síðastnefnda liðinu.

Hjá Val hittir Arna Sif fyrir tvo aðra fyrrverandi leikmenn Þórs/KA, Önnu Rakel Pétursdóttur og Lillý Rut Hlynsdóttur.

Auk Örnu Sifjar hefur Valur fengið þær Bryndísi Örnu Níelsdóttur og Þórdísi Elvu Ágústsdóttur til sín í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×