Erlent

Dóttir Duterte hætt í borgarstjóraslag rétt fyrir lok framboðsfrests

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur atyrðast við stuðningsmann Söru Duterte-Carpio í sendiferðabíl.
Mótmælendur atyrðast við stuðningsmann Söru Duterte-Carpio í sendiferðabíl. Vísir/EPA

Sara Duterte-Carpio, dóttir forseta Filippseyja, sækist ekki lengur eftir endurkjöri sem borgarstjóri í Davao. Hún dró framboð sitt til baka án skýringa aðeins nokkrum dögum áður en frestur til að skila inn framboði vegna forsetakosninga á næsta ári rennur út.

Lengi hefur verið rætt um að Duterte-Carpio gæti tekið við af föður sínum sem forseti Filippseyja. Hún tjáði stuðningsmönnum sínum í Facebook-færslu að von væri á frekari tilkynningum frá henni á næstunni.

Forsetakosningarnar fara fram í maí en framboðsfrestur rennur út á mánudag, 15. nóvember. Duterte forseti má ekki bjóða sig fram til endurkjörs vegna ákvæða í stjórnarskrá landsins. Hann segist ætla að setjast í helgan stein.

Þrátt fyrir miklar vangaveltur hefur Duterte-Carpio haldið því fram að hún hefði ekki áhuga á að verða forseti. Eftir að Ferdinand „Bongbong“ Marcos yngri tilkynnti um framboð sitt til forseta sagði hún þó vera opin fyrir einhvers konar bandalagi við hann, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Marcos yngri er sonur fyrrverandi einræðisherra Filippseyja sem var steypt af stóli árið 1986. Fjölskylda hans er enn ein sú valdamesta í filippseyskum stjórnmálum þrátt fyrir að fyrrverandi einræðisherrann og kona hans hans hafi stolið ótöldum fjármunum af löndum sínum þegar þau voru við völd.

Duterte-Carpio nýtur mikillar hylli á Filippseyjum, sérstaklega í sunnanverðu landinu. Faðir hennar var borgarstjóri í Davao á undan henni. Hún tilkynnti í dag að bróðir hennar og varaborgarstjór Sebastian yrði í framboði til borgarstjóra í stað hennar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×