Fótbolti

Sara Björk á í erfið­leikum með að koma sér upp úr sófanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir í liðsmyndatöku hjá Olympique Lyon.
Sara Björk Gunnarsdóttir í liðsmyndatöku hjá Olympique Lyon. Getty/Tullio Puglia

Íslenski landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir er að verða móðir í fyrsta sinn á næstunni en síðustu vikur hafa reynt mikið á Söru og hún viðurkennir að hún sé alveg tilbúinn að fá strákinn sinn í fangið sem fyrst.

Sara Björk Gunnarsdóttir er á lokasprettinum í meðgöngu sinni og fer af því tilefni aðeins yfir stöðu mála í Puma dagbókinni sinni.

„Þetta nálgast og það eru bara fjórar vikur í settan dag. Ég verð að segja að þessar vikur hafa verið erfiðari en allar hinar vikurnar. Mér finnst ég vera þung og á í erfiðleikum með að koma mér úr sófanum,“ segir Sara Björk í myndbandinu.

„Ég er þreytt og það er erfitt því ég hef verið svo mikið að hreyfa mig síðasta mánuðinn. Ég náði þá að æfa og gera svo mikið en núna er líkaminn minn að segja mér að róa mig og njóta. Vera róleg. Ég er ekki vön því að líkaminn minn sé svona og þá fer ég svolítið að efast um það að ég geti komist aftur í sama form og ég var í,“ segir Sara.

Sara segist hafa farið til ljósmóður og hún segir að barnið sé farið að skorað sig og undirbúa sig undir að koma út.

„Ég get bara labbað í tíu mínútur áður en ég verð of þreytt. Þú verður að hlusta á líkamann þinn en mér líður eiginlega eins og ég sé meidd. Ég þarf að klípa mig stundum og átta mig á því að ég er ófrísk. Ég er á níunda mánuði og finn vel fyrir því,“ segir Sara.

„Það er mikil vinna að vera ófrísk en það er skrýtið að vera komin úr allir rútinu og vera bara að bíða. Ég er að undirbúa allt eins og herbergið og annað. Ég er bara rosalega spennt að sjá barnið mitt,“ segir Sara.

„Það höfðu margir sagt mér frá sinni upplifun af meðgöngu en þegar á hólminn er komið þá færð þú þína eigin upplifun. Þú verður að halda opnum hug og vera jákvæð. Ég hef verið frekar fersk en síðustu vikur hafa verið svolítið sjokkerandi því ég var svo þreytt,“ segir Sara.

„Ég reyni ekki að telja dagana en ég er tilbúinn að koma honum út. Að fá litla strákinn minn í heiminn. Það verður ótrúleg stund að fá hann í fangið,“ segir Sara en það má sjá myndbandið hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×