Fótbolti

Xavi ætlar að hrista upp í leik­manna­hópnum | Piqu­e, Alba, Rober­to og Busquets á út­leið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Xavi virðist hvorki ætla að nota Busquets og Piqué.
Xavi virðist hvorki ætla að nota Busquets og Piqué. Pedro Salado/Getty Images

Svo virðist sem nýr þjálfari Barcelona ætli sér að taka til hendinni og losa sig við suma af sínum reynslumestu leikmönnum.

Hinn 41 árs gamli Xavi var í dag tilkynntur sem nýr þjálfari spænska knattspyrnufélagsins Barcelona. Xavi er goðsögn hjá félaginu og er nú snúinn aftur „heim“ eftir sex ár hjá Al Sadd í Katar, fjögur sem leikmaður og tvö sem þjálfari.

Þó svo að franski vængmaðurinn Ousmane Dembélé hafi fengið mikið hrós frá verðandi þjálfara sínum í dag virðist sem enginn leikmaður muni eiga öruggt sæti í leikmannahóp Börsunga.

Samkvæmt frétt El Nacional þá stefnir Xavi á að leyfa fjórum af reynslumestu leikmönnum liðsins að hverfa á braut í sumar. Um er að ræða miðvörðinn Gerard Piqué, vinstri bakvörðinn Jordi Alba, hægri bakvörðinn Sergi Roberto og miðjumanninn Sergio Busquets.

Það gæti þó reynst þrautin þyngri en samningur hins 34 ára gamla Pique rennur ekki út fyrr en sumarið 2024. Sömu sögu er að segja af hinum 32 ára gamla Alba á meðan samningur hins 33 ára gamla Busquets rennur út sumarið 2023. Hinn 29 ára gamli Roberto verður hins vegar samningslaus næsta sumar.

Ef marka má þessar fréttir er ljóst að Xavi vill yngri leikmenn þar sem hann vill spila af miklum ákafa frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Meira um leikstíl Xavi má lesa í viðtali Bjarka Má Ólafssonar við Sky Sports er ljóst var að Xavi yrði nýr þjálfari Börsunga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×