Erlent

Allar líkur á ó­væntum sigri Repúblikana í vígi Demó­krata

Atli Ísleifsson skrifar
Glenn Youngkin hefur um árabil starfað í heimi viðskipta sem forstjóri The Carlyle Group.
Glenn Youngkin hefur um árabil starfað í heimi viðskipta sem forstjóri The Carlyle Group. AP

Repúblikaninn Glenn Youngkin verður að öllum líkindum næsti ríkisstjóri Virginíu í Bandaríkjunum en kosningar fóru fram í ríkinu í gær. Hann er tæpum þremur prósentum á undan frambjóðanda Demókrata þegar 95 prósent atkvæða hafa verið talin.

Verði þetta niðurstaðan eru úrslitin sögð mikið áfall fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta en Virginía hefur verið vígi Demókrata og vann forsetinn ríkið til dæmis með tíu prósenta mun í síðustu forsetakosningum.

Youngkin virðist því ætla að hafa betur gegn Demókratanum Terry McAuliffe sem gegndi embætti ríkisstjóra á árunum 2014 til 2018, en á síðustu vikum hafði forskot McAuliffe í skoðanakönnunum fuðrað upp.

Í ávarpi sínu til stuðningsmanna sagði Youngkin að sigurinn markaði straumhvörf í ríkinu, en McAuliffe hefur þó enn ekki viðurkennt ósigur sinn.

Terry McAuliffe.AP

Þá virðist mjög hörð barátta vera í New Jersey þar sem sitjandi ríkisstjóri sem er Demókrati gæti tapað embættinu til Repúblikana.

Vinsældir Bidens forseta hafa minnkað síðustu vikur í ljósi vaxandi verðbólgu, erfiðleika í efnahagsmálum og átaka á þinginu auk þess sem brottflutningur herliðsins frá Afganistans var harðlega gagnrýndur.

Nú eru aðeins 42 prósent þjóðarinnar ánægð með störf hans en í ágúst var um helmingur landsmanna ánægður með forsetann.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×