Fótbolti

Agüero að braggast en verður þó frá næstu þrjá mánuðina

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ljóst er að Argentínumaðurinn mun ekki spila meira á þessu ári.
Ljóst er að Argentínumaðurinn mun ekki spila meira á þessu ári. Pedro Salado/Getty Images

Sergio Agüero þurfti að yfirgefa völlinn vegna verkja í brjósti er Barcelona og Deportivo Alavés gerðu 1-1 jafntefli um helgina. Spænska félagið hefur nú gefið út að leikmaðurinn spili ekki næstu þrjá mánuðina.

Hinn 33 ára gamli Agüero var í byrjunarliði Barcelona í aðeins annað skiptið síðan hann gekk í raðir félagsins í sumar. Hann fann fyrir verkjum í brjósti og var meðhöndlaður á vellinum áður en farið var með hann á sjúkrahús.

Í yfirlýsingu Barcelona segir að leikmaðurinn verði meðhöndlaður af læknum næstu þrjá mánuðina og fylgst verði grannt með heilsu hans á meðan. Mun árangur meðhöndlunarinnar ákvarða hversu lengi hann verði frá keppni.

Agüero sagði á samfélagsmiðlum sínum að sér liði nokkuð vel og að öll skilaboðin og ástin sem hann hefði fengið gerði hjarta hans sterkara.

Sergio Agüero gekk í raðir Börsunga síðasta sumar eftir að samningur hans við Manchester City rann út. Er Argentínumaðurinn markahæsti leikmaður í sögu Man City með 260 mörk í 390 leikjum.

Orðrómar voru á kreiki um að landi hans og vinur Lionel Messi vildi fá framherjann til Parísar en nú er ljóst er að ekkert verður úr þeim vistaskiptum á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×