Innlent

For­­manns­efni kennara segja kulnun mikil­vægasta verk­efnið

Árni Sæberg skrifar
Frá hægri: Anna María Gunnarsdóttir, Magnús Þór Jónsson, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, Heimir Eyvindarson og Hólmfríður Gísladóttir, stjórnandi Pallborðs dagsins.
Frá hægri: Anna María Gunnarsdóttir, Magnús Þór Jónsson, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, Heimir Eyvindarson og Hólmfríður Gísladóttir, stjórnandi Pallborðs dagsins. Vísir/Vilhelm

Frambjóðendurnir fjórir til formanns Kennarasambands Íslands eru sammála um að umfjöllun um menntamál hér á landi sé allt of neikvæð. Þá geri pólitíkin kennurum erfitt fyrir með sífelldum breytingum á tíu ára fresti. Líflegar umræður spunnust í Pallborðinu á Vísi um menntamál í dag.

Frambjóðendur segja skólamál of oft vera sýnd í neikvæðu ljósi í samfélagsumræðunni. Magnús Þór Jónsson skólastjóri Seljaskóla nefnir til dæmis að niðurstöður PISA-kannanna og læsiskannanna rati oft í fyrirsagnir fjölmiðla.

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kennari í Borgarholtsskóla segir að kennarar eigi að „rífa í hljóðnemann“ í því skyni að bæta umfjöllun um menntamál á Íslandi.

„Langstærstur hluti foreldra er ótrúlega ánægður með þá þjónustu kennara og skóla sem fólk er að fá. Fólk er almennt ánægt,“ segir Magnús Þór við góðar undirtektir hinna frambjóðendanna.

Erfitt umhverfi fyrir kennara

Umhverfi kennarans sé þó oft erfitt með tilliti til námsskrár sem kennarar eiga að fara eftir að sögn Heimis Eyvindarsonar dönskukennara og deildarstjóra í Grunnskólanum í Hveragerði.

„Það er náttúrulega þannig að stjórnvöld hafa, alveg óslitið frá 1974, á tíu til fimmtán ára fresti snúið öllu á hvolf. Pólitíkin snýr öllu á hvolf og skiptir um starfsumhverfi fyrir okkur,“ segir Heimir.

Þá ræddu frambjóðendur samfélagið í skólunum og hvernig dagarnir eigi að vera hjá ungum börnum. „Hvernig viljum við búa að okkar yngstu börnum, hvað viljum við að þau séu lengi í skólanum, eiga þau ekki rétt á neinni styttingu vinnuvikunnar?“ veltir Anna María Gunnarsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, fyrir sér.

Gengið að rafrænum kjörborðum á morgun

Rafræn atkvæðagreiðsla hefst á morgun og stendur yfir til 8. nóvember. Frambjóðendur hvetja kennara til að taka þátt.

„Í síðustu kosningum var kjörsókn 53 prósent og það er ekki nóg,“ segir Hanna Björg.

Umræður frambjóðenda til formanns Kennarasambands Íslands á Pallborðinu á Vísi má sjá í spilaranum hér að neðan:



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×