Íslenski boltinn

Natasha Anasi til Breiðabliks | Verður ekki með í Meistara­deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Natasha og Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, við undirskriftina.
Natasha og Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, við undirskriftina. Breiðablik

Natasha Moraa Anasi gekk í dag í raðir Breiðabliks. Samdi hún við Kópavogsliðið til tveggja ára. Natasha kemur til liðsins frá Keflavík þar sem hún hefur leikið frá árinu 2017.

Natasha samdi við ÍBV árið 2014 og hefur leikið hér á landi allar götur síðan. Alls hefur hún leikið 153 KSÍ leiki fyrir Keflavík og ÍBV og skorað 50 mörk. Þar á meðal 14 í 17 leikjum í Lengjudeild kvenna árið 2020.

Þá á hún að baki tvo A-landsleiki fyrir Ísland.

Hin þrítuga Natasha hefur aðallega leikið sem miðvörður eða sem djúpur miðjumaður hjá Keflavík en brá sér einstaka sinnum í sóknina sumarið 2020 eins og markaskorun hennar gefur til kynna.

Bikarmeistarar Breiðabliks enduðu í 2. sæti Pepsi Max deildar kvenna á síðustu leiktíð og eru sem stendur í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. 

Á vef Breiðabliks kemur fram að Natasha sé því miður ekki lögleg í Meistaradeildinni „en mun án efa gefa liðsfélögum sínum mikið á æfingum og koma með dýrmæta reynslu í hópinn sem nýtist vel í keppninni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×