Erlent

Frakkar kyrr­setja breskt fisk­veiði­skip vegna deilu um veiði­heimildir

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Skipið var kyrrsett í nótt eftir að það fannst í franskri lögsögu.
Skipið var kyrrsett í nótt eftir að það fannst í franskri lögsögu. EPA-EFE/YOAN VALAT

Spennan milli Bretlands og Frakklands jókst í dag þegar Frakkar kyrrsettu breskan bát sem var við veiðar í franskri lögsögu. Bretland hefur nú varað Frakkland við frekari aðgerðum en deilur milli ríkjanna vegna veiðiheimilda fara síversnandi.

Annick Girardin, sjávarútvegsráðherra Frakklands, tilkynnti í dag að breska skelfisksveiðiskipinu Cornelis Gert Jan hafi verið fylgt í höfn í Le Havre í nótt eftir að áhöfninni tókst ekki að sýna fram á að hún hefði heimild til að veiða í franskri lögsögu. Annað breskt skip hefur fengið viðvörun vegna svipaðra brota.

Aðgerðirnar eru taldar merki um staðfestu Frakka í málinu. Síðast í gær kynntu Frakkar mögulegar refsiaðgerðir gegn Bretum gangi ekkert í samningaviðræðum um málið. Meðal refsiaðgerðanna er sérstakt tolleftirlit með breskum vörum frá og með 2. nóvember. Bretar hræðast að það gæti orðið til þess að Frakkar stöðvi rafmagnssölu til Bretlands takist ríkjunum ekki að komast að samkomulagi. 

Bresk fiskveiðisvæði eru talin þau aflamestu í Norðaustur-Atlantshafinu og það svæði sem meirihluti afla Evrópusambandsins kemur úr. 

Frakkar vilja meina að Bretland hafi neitað að veita sjómönnum þeirra heimildir til að veiða innan breskrar lögsögu. Bretar vilja þó meina að þeir veiti aðeins þeim skipum veiðiheimildir sem standist breskar kröfur. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×