Erlent

Kennsl borin á eitt fórnar­lamba eins þekktasta rað­morðingja Banda­ríkjanna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Francis Wayne Alexander var 21 eða 22 ára þegar John Wayne Gacy myrti hann.
Francis Wayne Alexander var 21 eða 22 ára þegar John Wayne Gacy myrti hann. AP

Yfirvöld í Illinois í Bandaríkjunum greindu frá því í dag að þau hefðu borið kennsl á eitt fórnarlamba raðmorðingjans Johns Wayne Gacy, sem var dæmdur fyrir 33 morð árið 1980.

Fórnarlambið sem kennsl voru borin á hét Francis Wayne Alexander og var frá Norður-Karólínu. Hann var 21 eða 22 ára þegar Gacy myrt hann, annað hvort árið 1976 eða 1977, að því er lögreglustjórinn í Cook-sýslu í Illinois hefur greint frá.

Guardian vísar í yfirlýsingu frá systur Alexander, þar sem hún þakkar lögregluyfirvöldum fyrir að veita fjölskyldu hans einhvers konar ró, þar sem örlög Alexander höfðu aldrei verið ljós fyrr en nú.

„Það er erfitt, jafnvel 45 árum síðar, að komast að raun um örlög okkar ástkæra Wayne. Hann var myrtur af andstyggilegum og illum manni. Við finnum til hjartasorgar og sendum fjölskyldum hinna fórnarlambanna samúðarkveðjur. Nú getum við lagt til hliðar það sem gerðist og haldið áfram með því að heiðra Wayne,“ segir í yfirlýsingunni.

Borið kennsl á þrjá frá 2011

Líkamsleifar Alexander voru á meðal þeirra 26 sem lögreglan fann í skriðrými undir heimili Gacy rétt utan við Chicago árið 1979. Þrjú fórnarlömb fundust þá grafin í garði fyrir utan húsið og Gacy gekkst við því að hafa myrt fjóra til viðbótar, sem fundust í skurði skammt frá borginni.

Það var svo árið 2011 sem nokkur líkanna voru rannsökuð og lögreglan kallaði eftir því að hver sem gæti átt ættingja sem hvarf á sjöunda áratugnum í kringum Chicago myndi stíga fram. Það var gert með það fyrir augum að bera kennsl á líkin með því að rannsaka erfðaefni þeirra.

Samkvæmt Guardian er Alexander þriðja fórnarlambið sem kennsl eru borin á með þessum hætti.

John Wayne Gacy hlaut tólf dauðadóma árið 1980 og var tekinn af lífi árið 1994, þá 52 ára gamall. Hann er á meðal þeirra bandarísku fjöldamorðingja sem hefur myrt hvað flesta. Hann var dæmdur fyrir 33 morð en talið er að fórnarlömb hans kunni að hafa verið mun fleiri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×