Erlent

Lifir í ótta um að myndir af líkams­leifum Kobe og Giönnu rati á netið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kobe og Vanessa Bryant.
Kobe og Vanessa Bryant. epa/Larry W. Smith

Vanessa Bryant, eiginkona körfuboltamannsins Kobe Bryant heitins, sagðist við skýrslutökur fyrst hafa heyrt af því að hann og 13 ára dóttir þeirra Gianna væru látin þegar hún fékk tilkynningar um það á símanum sínum.

Fjölmiðlar greindu sumsé frá því að þau hefðu látist af slysförum áður en hún var látin vita af yfirvöldum og tilkynningarnar komu frá samskiptamiðlum þar sem fólk deildi skilaboðum á borð við „RIP Kobe“, eða „hvíl í friðið Kobe“.

Bryant hefur höfðað mál á hendur lögreglunni í Los Angeles-sýslu vegna málsins en greint hefur verið frá því að átta lögreglumenn sem mættu á vettvang þegar þyrlan með Kobe og dóttur þeirra innanborðs hrapaði hafi tekið mynd af líkamsleifum þeirra.

Bryant segist lifa í stöðugum ótta um að myndunum verði lekið á netið og að eftirlifandi börn þeirra og aðrir nákomnir sjái þær.

Við skýrslutökur var Bryant spurð að því hvernig hún hefði frétt af slysinu og svaraði því til að aðstoðarmaður fjölskyldunnar hefði greint henni frá því að þyrla Kobe og Giönnu hefði hrapað. Fimm hefðu hins vegar lifað af og Bryant talið líklegt að þau væru meðal eftirlifenda.

Skömmu síðar hefðu skilaboðin hins vegar farið að detta inn á símann.

Bryant sagðist hafa átt samtal við lögreglustjórann Alex Villanueva þar sem hún bað hann um að tryggja svæðið þannig að engar myndir yrðu teknar sem gætu ratað í fjölmiðla. Hann hefði heitið því en síðar hefði komið í ljós að lögreglumenn hefðu tekið myndir af líkamsleifum þeirra sem voru um borð í þyrlunni og einn meðal annars sýnt þær á bar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×