Fótbolti

„Ekki hægt að vera undir meiri pressu en ég er núna“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ronald Koeman.
Ronald Koeman. vísir/getty

Barcelona fær Real Madrid í heimsókn í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta á morgun og Ronald Koeman, stjóri Barcelona, veit nákvæmlega hversu mikla þýðingu leikurinn gæti haft fyrir framtíð sína.

Koeman er sagður valtur í sessi enda Barcelona ekki verið sannfærandi í upphafi leiktíðar. Situr liðið í 8.sæti spænsku úrvalsdeildarinnar.

Með sigri á erkifjendunum í Real Madrid gætu Börsungar reyndar lyft sér upp fyrir Real og farið upp í 2.sæti deildarinnar.

„Það er ekki mögulegt að vera undir meiri pressu. Sem stjóri Barcelona verður maður að taka því. Þetta er ekkert vandamál og ég veit hversu miklu máli El Clasico skiptir,“ sagði Koeman á blaðamannafundi í dag.

„Ég er stjóri Barcelona í dag og við sjáum til hvað verður á morgun. Ég finn fyrir stuðningi innan félagsins en ég veit að hjá þessu félagi þarf að ná úrslitum,“ sagði Koeman þegar hann var spurður út í starfsöryggi sitt.

„Nú höfum við unnið tvo leiki í röð og andrúmsloftið er miklu betra. Við óttumst ekkert. Ég tel okkur hafa góða blöndu af ungum leikmönnum og reynslumiklum leikmönnum. Við erum betri í að halda bolta innan liðs en Real Madrid en þeir eru mjög hættulegir í skyndisóknum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×