Erlent

Alec Baldwin varð konu að bana við tökur á nýrri mynd

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Halyna Hutchins og Alec Baldwin.
Halyna Hutchins og Alec Baldwin. Getty

Leikarinn Alec Baldwin er sagður hafa orðið konu að bana við tökur á kvikmynd í Nýju-Mexíkó. Samkvæmt erlendum miðlum hleypti Baldwin af skotvopni sem var einn af leikmunum myndarinnar, með þeim afleiðingum að kona dó og maður særðist.

Konan hét Halyna Hutchins og var kvikmyndatökustjóri myndarinnar en maðurinn er leikstjórinn Joel Souza. Hutchins var flutt með þyrlu á University of New Mexico Hospital þar sem hún var úrskurðuð látin en Souza með sjúkrabíl á Christus St. Vincent Regional Medical Center, þar sem gert er að sárum hans.

Að sögn lögregluyfirvalda er unnið að rannsókn málsins. Lögreglustjórinn Juan Rios sagði í samtali við Guardian að Baldwin hefði gefið sig fram viljugur og rætt við lögreglu en farið frjáls ferða sinna að því loknu.

Miðillinn Santa Fe New Mexican greindi frá því að leikarinn hefði sést í tárum fyrir utan lögreglustöðina. Hann vildi ekki tjá sig við fjölmiðla en talsmaður hans staðfesti að slys hefði átt sér stað við upptökur á myndini Rust.

Hutchins, sem var 42 ára, úskrifaðist frá American Film Institute árið 2015 og var meðal annars nefnd „rísandi stjarna“ af American Cinematographer árið 2019.

Baldwin hefur notið frægðar um árabil en er ekki síst þekktur fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum 30 Rock.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.