Úrslit: Leicester - Man. Utd 4-2 | Leicester sigur í stórskemmtilegum leik

Yuri Tielemans skoraði frábært mark
Yuri Tielemans skoraði frábært mark PA-EFE/NEIL HALL

Leicester City og Manchester United höfðu ekki verið að gera neinar rósir í síðustu leikjum liðanna í deildinni. Manchester United hafði gert tvö jafntefli í röð og Leicester líka. Það var því mikilvægt fyrir bæði lið að sækja sigur.

Leikurinn byrjaði fjörlega og ljóst að bæði liðin ætluðu að selja sig dýrt. Varnarlína Manchester United var þó í vandræðum með pressu sóknarmanna Leicester. Það átti eftir að draga dilk á eftir sér.

Það var á 19. mínútu sem dró til tíðinda. Bruno Fernandes gaf þá boltann á Mason Greenwood sem lék inn á miðjuna og hamraði boltann með vinstri fæti í fjærhornið af 25 metra færi. Stöngin inn. Frábært mark.

Leicester svöruðu þó fljótt. Á 31. mínútu voru gestirnir að dútla með boltann í vörninni þegar að Harry Maguire misreiknaði pressuna frá Kelechi Iheanacho sem vann boltann og lagði hann út á Yuri Tielemans sem setti boltann í fyrsta upp í samskeytin fjær. Glæsilegt mark og þrátt fyrir fleiri tilraunir blálæddra þá var staðan 1-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var skemmtilegur og áttu bæði liðin fullt af færum. Það voru þó heimamenn í Leicester sem komust í 2-1. Caglar Söyüncü skoraði á 78. mínútu eftir mikinn darraðadans í teig gestana. Talsvert ljótara mark en fyrstu tvö mörk leiksins, en nákvæmlega jafn verðmætt.

Einungis fjórum mínútum seinna jöfnuðu Rauðu Djöflarnir með marki frá Marcus Rashford. Rashford, sem hefur verið talsvert frá á tímabilinu vegna meiðsla fékk þá góða sendingu inn fyrir vörnina frá Victor Lindelöf og skoraði af öryggi.

Nokkrum sekúndum síðar, skoruðu Leicester aftur. Þar var á ferðinni markamaskínan Jamie Vardy. Ayoze Perez lék upp völlin og fann Vardy, sem var algerlega einn og óvaldaður í teignum. Vardy lét ekki bjóða sér þetta tvisvar og sneiddi boltann glæsilega í fjærhornið. Ótrúleg atburðarás. staðan 3-2 og farið að þykkna upp hjá Manchester United sem pressuðu stíft í kjölfarið.

Það voru svo Leicester sem skoruðu síðasta mark leiksins í uppbótartíma. Það var Sambíumaðurinn Patson Daka sem gerði það. Lokatölur 4-2 og Leicester fer upp í ellefta sæti deildarinnar með ellefu stig. Manchester United er í fimmta sætinu með fjórtán stig eftir þrenn erfið úrslit í röð.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.