Fótbolti

Liggur í augum uppi að þeir eru sigurstranglegri

Sindri Sverrisson skrifar
Óttar Bjarni Guðmundsson ætlar sér að koma þessum verðlaunagrip upp á Akranes á morgun.
Óttar Bjarni Guðmundsson ætlar sér að koma þessum verðlaunagrip upp á Akranes á morgun. vísir/vilhelm

Óttar Bjarni Guðmundsson er fyrirliði ÍA sem freistar þess að landa bikarmeistaratitli og sæti í Evrópukeppni með sigri gegn Víkingi á Laugardalsvelli á morgun.

Óttar Bjarni, sem er 31 árs og uppalinn Leiknismaður, kemur til með að spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik á morgun. Hann var á varamannabekknum hjá Stjörnunni þegar liðið vann Breiðablik í vítaspyrnukeppni fyrir þremur árum og þekkir því tilfinninguna að fagna bikarmeistaratitlinum.

„Ég er bara gríðarlega spenntur og fullur eftirvæntingar. Þetta er búin að vera svolítið löng bið eftir þessum leik,“ segir Óttar Bjarni en ÍA spilaði síðast fyrir tveimur vikum, þegar liðið sló Keflavík út í undanúrslitum.

Klippa: Viðtal við Óttar Bjarna fyrir bikarúrslitaleik

Skagamenn björguðu sér frá falli úr Pepsi Max-deildinni með mögnuðum endaspretti þar sem þeir unnu síðustu þrjá leiki sína. Þeir enduðu hins vegar 27 stigum á eftir mótherja morgundagsins, Víkingum:

„Þeir eru Íslandsmeistarar þannig að ég held að það liggi í augum uppi að þeir séu fyrir fram sigurstranglegri. En við ætlum að gefa þeim hörku-hörkuleik og leggja okkur hundrað prósent fram,“ sagði Óttar Bjarni á fjölmiðlafundi á Laugardalsvelli í vikunni.

„Við fundum mjög góðan takt undir restina og vonandi kemur þessi meðbyr með okkur í leikinn. Við höfum fulla trú á því að við getum sigrað Víkinga þó svo að þeir séu Íslandsmeistarar. Við erum bjartsýnir á góð úrslit. Við þurfum að spila betur en þeir, gera það sama og í síðustu leikjum og hamra svolítið á þeim,“ sagði Óttar Bjarni.

Bikarúrslitaleikur ÍA og Víkings er á Laugardalsvelli á morgun klukkan 15. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport þar sem upphitun hefst klukkan 14.15.


Mjólkurbikarinn er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Mjólkurbikarinn er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.