Fjórar konur og einn karlmaður frá fimmtugu til sjötugs féllu þegar maðurinn skaut á þau með boga og örvum í matvöruverslun í Kongsberg í gærkvöldi. Árásarmaðurinn er 37 ára gamall Dani sem er sagður hafa snúist til íslamstrúar og öfgahyggju.
Í yfirlýsingu frá öryggisstofnuninni í dag kemur fram að rannsókn sé ekki lokið en svo virðist sem að um hryðjuverk hafi verið að ræða. Ekki sé þó talin ástæða til að breyta viðbúnaðarstigi vegna hryðjuverkaógnar vegna árásarinnar.
Norska ríkisútvarpið NRK segir að maðurinn hafi hlotið nokkra sakadóma, meðal annars fyrir innbrot og fíkniefnabrot. Í fyrra hafi hann verið látinn sæta sex mánaða nálgunarbanni gagnvart tveimur nánum ættingjum eftir að hann hótaði að drepa annan þeirra.
Lögreglan hefur sagt að hún hafi haft afskipti af manninum áður og að ábendingar hefðu borist um að hann hefði hneigst að öfgahyggju. Maðurinn var handtekinn á vettvangi eftir átök við lögreglu. Hann verður líklega látinn sæta geðrannsókn.