Erlent

Segir ekkert því til fyrirstöðu að gift lesbía verði drottning

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Willem-Alexander konungur og Maxima drottning ásamt dætrum sínum þremur. Amalia er fyrir miðju.
Willem-Alexander konungur og Maxima drottning ásamt dætrum sínum þremur. Amalia er fyrir miðju. epa/Remko De Waal

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, segir það ekki koma í veg fyrir að erfingi krúnunnar verði drottning eða konungur að viðkomandi hafi gengið í hjónaband með einstaklingi af sama kyni. 

Um fræðilega spurningu væri að ræða en Amalia prinsessa, sem verður 18 ára í desember, gæti vel gifst konu og engu að síður orðið næsta drottning Hollands.

Þess ber að geta að ekkert er vitað um kynhneigð Amaliu en Rutte var að svara fyrirspurn þingmanna úr eigin flokki, sem vildu fá það á hreint hvað gerðist ef erfingi krúnunnar reyndist samkynhneigður.

Samkynhneigðir hafa getað gengið í hjónaband í Hollandi frá 2001 en samkvæmt BBC hefur verið gengið út frá því að þetta ætti ekki við um erfingja krúnunnar, þar sem þeir þurfa að eignast afkvæmi til að viðhalda erfðalínunni.

Hvað varðar erfðarétt barna samkynhneigðrar drottningar eða konungs sagði Rutte málið „skelfilega flókið“ en í stjórnarskránni er talað um „lögmætan erfingja“. Spurningin er þá hvort ættleitt barn eða barn getið með gjafakynfrumum félli undir þá skilgreiningu.

„Við skulum fara þá brú þegar við komum að henni,“ sagði Rutte.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×