Fótbolti

Enn mögulegt að Ísland komist á HM í Katar

Sindri Sverrisson skrifar
Sveinn Aron og Andri Lucas Guðjohnsen fagna fjórða og síðasta markinu gegn Liechtenstein í gærkvöld.
Sveinn Aron og Andri Lucas Guðjohnsen fagna fjórða og síðasta markinu gegn Liechtenstein í gærkvöld. vísir/Vilhelm

Eins ótrúlega og það kann að hljóma þá er enn mögulegt að íslenska karlalandsliðið í fótbolta komist á HM í Katar. Möguleikinn er vissulega mjög, mjög fjarlægur en riðillinn sem Ísland leikur í er einstaklega jafn.

Í flestum öðrum riðlum myndi það að vera með 8 stig eftir 8 umferðir af 10 einfaldlega þýða að Ísland væri úr leik í baráttunni um HM-sæti. Svo er ekki í hinum jafna J-riðli þar sem staðan er núna þessi:

Staðan í riðli Íslands þegar tvær umferðir eru eftir. Þýskaland hefur tryggt sér efsta sætið og þar með sæti á HM en 2. sætið gefur þátttökurétt í umspili.

Þýskaland er búið að vinna riðilinn og tryggja sér sæti á HM. Liðið sem nær 2. sæti kemst í umspil.

Til að Ísland eigi möguleika á að komast á HM þarf eftirfarandi að gerast í síðustu tveimur umferðunum, 11. og 14. nóvember:

  • Ísland þarf að vinna báða sína leiki, gegn Rúmeníu og Norður-Makedóníu á útivöllum.
  • Armenía og Norður-Makedónía þurfa að gera jafntefli í sínum leik 11. nóvember.
  • Þýskaland þarf að vinna Armeníu á útivelli 14. nóvember.
  • Liechtenstein þarf að vinna Rúmeníu á heimavelli 14. nóvember.

Til marks um það hversu raunhæft það er að þetta gangi eftir þá metur íþróttatölfræðiveitan Gracenote möguleika Íslands á að ná 2. sæti nær 0% en 1%. Ekkert er þó útilokað í heimi íþróttanna.

Einu sigrar Íslands komið gegn Liechtenstein

Einu sigrar Íslands til þessa hafa komið gegn botnliði Liechtenstein. Til þess að Ísland eigi möguleika á að komast á HM þarf liðið meðal annars á hjálp frá Liechtenstein að halda og miðað við spilamennsku Liechtenstein í gær, í 4-0 tapinu gegn Íslandi, er það sennilega það langsóttasta við möguleika Íslands, ásamt því að Ísland taki upp á því að vinna tvo snúna útileiki.

Hafa ber þó í huga að í lið Liechtenstein vantaði lykilmenn í gær og að liðið afrekaði að ná 1-1 jafntefli við Armeníu á útivelli í síðasta mánuði. Svo er reyndar hugsanlegt (en mjög langsótt) að Íslandi dygði að Liechtenstein næði jafntefli við Rúmeníu, ef að Ísland ynni til dæmis þriggja marka sigur gegn liði Rúmena á útivelli.

Að sama skapi gæti Ísland mögulega endurheimt sterka leikmenn á borð við Alfreð Finnbogason, Jóhann Berg Guðmundsson og fleiri fyrir leikina í nóvember, auk þess sem ungir og nýir leikmenn í hópnum hafa nú fengið tækifæri til að venjast lífinu í A-landsliðstreyjunni.

Ekkert er fjarlægt við þann möguleika að Armenía og Norður-Makedónía geri jafntefli, og hvað þá að Þýskaland vinni Armeníu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.