Umfjöllun: Ísland - Liechtenstein 4-0 | Lyklabörnin léku sér að Liechtenstein

Sindri Sverrisson og Ingvi Þór Sæmundsson skrifa
Hjörtur Hermannsson, Albert Guðmundsson, Alfons Sampsted, Andri Fannar Baldursson og fleiri þakka áhorfendum fyrir stuðninginn sem var góður á Laugardalsvelli í kvöld.
Hjörtur Hermannsson, Albert Guðmundsson, Alfons Sampsted, Andri Fannar Baldursson og fleiri þakka áhorfendum fyrir stuðninginn sem var góður á Laugardalsvelli í kvöld. VÍSIR/VILHELM

Ísland vann eins auðveldan og þægilegan sigur og hugsast getur í alþjóðlegum nútímafótbolta þegar liðið lagði Liechtenstein að velli, 4-0, í síðasta heimaleik sínum í undankeppni HM karla í Katar.

Tæplega 4.500 áhorfendur mættu í Laugardalinn, mun fleiri en á jafnteflið við Armeníu á föstudag, og bæði það og sigurinn gefur landsliðinu nauðsynlega jákvæðnisprautu eftir drungalegan tíma.

Ísland var 2-0 yfir í hálfleik og bætti svo við tveimur mörkum á lokakafla leiksins eftir að gestirnir höfðu misst mann af velli með rautt spjald á 63. mínútu.

Albert Guðmundsson ánægður með  fyrra markið sitt. Þetta var hans fyrsta mark í keppnislandsleik.Vísir/Vilhelm

Þar með er ljóst að Liechtenstein endar á botni J-riðils en liðið er með 1 stig þegar tvær umferðir eru eftir. Ísland er með 8 stig í næstneðsta sæti og á eftir útileiki við Rúmeníu og Norður-Makedóníu í nóvember.

Von Íslands um að komast HM var þó svo gott sem úr sögunni fyrir leikinn í kvöld en Ísland er nú fjórum stigum á eftir Armeníu og Norður-Makedóníu, og fimm stigum á eftir Rúmeníu í 2. sæti. Þýskaland tryggði sér sigur í riðlinum í kvöld og er með 21 stig.

Draumabyrjun Skagamannsins

Ísland var án flestra þeirra leikmanna sem leikið hafa aðalhlutverkin síðustu ár, eða áratug, en ungu mennirnir sem nú eru farnir að ráða ýmsu á heimilinu sýndu að þeim var að minnsta kosti treystandi til að leysa verkefni kvöldsins af fagmennsku.

Væntanlega bætast fleiri „fullorðnir“ leikmenn í hópinn fyrir næstu leiki, eftir að hafa jafnað sig af meiðslum, en að sama skapi hlýtur að vera freistandi fyrir landsliðsþjálfarana að halda áfram að gefa „lyklabörnunum“ sem flestar mínútur og huga um leið að því hvað henti best til að ná inn á Evrópumótið 2024.

Algjör einstefna var í átt að marki gestanna allan leikinn í kvöld og aldrei reyndi nokkuð á Elías Rafn Ólafsson sem hélt sæti sínu í marki Íslands. Varnarlínan fyrir framan hann, sem breyttist snemma vegna meiðsla Daníels Leós Grétarssonar, þurfti sömuleiðis varla að verjast og leikurinn snerist aðeins um það hvenær Ísland kæmist yfir og hve mörg mörkin yrðu.

Alfons Sampsted og Stefán Teitur Þórðarson glaðbeittir eftir markið mikilvæga sem Stefán skoraði í sínum fyrsta mótsleik fyrir Ísland. Alfons átti stóran þátt í öðru marki Íslands með frábæru skoti utan teigs.VÍSIR/VILHELM

Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen hafa, að miklu leyti reyndar tilneyddir, getað gefið fjölda leikmanna tækifæri og Stefán Teitur Þórðarson bættist í hópinn í kvöld. Skagamaðurinn sem átti svo frábært tímabil í Pepsi Max-deildinni í fyrra, og leikur nú með Silkeborg í dönsku úrvalsdeildinni, lék sinn fyrsta mótsleik fyrir Ísland í kvöld og nýtti tækifærið frábærlega.

Stefán Teitur þekkir hugmyndafræði Arnars og Eiðs vel úr U21-landsliðinu og hann fór á hárréttum tíma fram í teiginn til að stanga boltann í netið eftir fyrirgjöf Jóns Dags Þorsteinssonar, eftir tæplega 20 mínútna leik. Þegar það lykilatriði var frágengið var aldrei spurning um að kvöldið yrði gleðilegt.

Martraðarinnkoma eins af gestunum

Liechtenstein er þriðja lakasta landslið Evrópu og í liðinu er fjöldi leikmanna sem erfitt er að flokka sem atvinnumenn. Martin Marxer er einn þeirra (félagsliðið hans á ekki einu sinni Wikipedia-síðu) en hann varð að koma inn á í vörnina vegna meiðsla strax á 8. mínútu, og átti sérstaklega erfitt kvöld.

Rauða spjaldið fór á loft á 63. mínútu og eftirleikurinn var enn auðveldari fyrir Ísland.vísir/Vilhelm

Fyrst fékk hann dæmt á sig víti eftir skot Viðars Arnar Kjartanssonar, annars tveggja leikmanna Íslands yfir 26 ára aldri, og svo seinna gula spjaldið og þar með rautt þegar hann braut á Þóri Jóhanni Helgasyni eftir góðan sprett Þóris.

Falleg Guðjohnsen-stund í lokin

Arnar gerði þrefalda skiptingu um leið og rauða spjaldið fór á loft og eins og gefur að skilja varð sóknarþungi Íslands aðeins meiri við liðsmuninn. Albert skoraði úr öðru víti á 79. mínútu og hefur þar með skorað sín fyrstu tvö mörk í mótsleikjum fyrir Ísland.

Sveinn Aron og Andri Lucas Guðjohnsen fallast í faðma eftir að hafa innsiglað 4-0 sigur Íslands.VÍSIR/VILHELM

Það var svo falleg stund undir lok leiks þegar Guðjohnsen-bræðurnir unnu að fjórða og síðasta markinu. Sveinn Andri, sem hafði fiskað seinna vítið fyrir Albert, kom boltanum á Andra Lucas sem skoraði sitt annað landsliðsmark. Bræðurnir náðu rúmum tíu mínútum saman í fremstu víglínu og þurftu ekki meiri tíma til að búa til mark sem þeir fögnuðu innilega saman.

Langt frá því að vera í ruslflokki

Leikurinn í kvöld var fínasta staðfesting á því að þó að allt hafi gengið á afturfótunum hjá íslenska landsliðinu síðustu mánuði þá er svartnættið ekki slíkt að Ísland sé komið í ruslflokk.

 Fullt af efnilegum leikmönnum eru byrjaðir að láta til sín taka í bláu treyjunni og það verður forvitnilegt að sjá á næstu misserum hvort þeir hafi það sem til þarf til að koma Íslandi aftur á stórmót. Um það gaf leikurinn í kvöld enga vísbendingu því andstæðingurinn var einfaldlega svo slakur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira