Innlent

Hjúkrunar­fræðingar lýsa hættu­á­standi á Bráða­mót­tökunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fyrir utan Bráðamóttökuna.
Fyrir utan Bráðamóttökuna. Vísir/Vilhelm

Daglega kemur fyrir að sjúkrabílar bíði með sjúklinga á börum sem komast ekki að vegna plássleysis á Bráðamóttökunni og sjúklingum er komið fyrir í öllum skúmaskotum af sömu ástæðu.

Svona lýsa hjúkrunarfræðingar á Bráðamótttöku Landspítalans ástandinu þar í fréttatilkynningu sem þeir sendu á fjölmiðla í kvöld.

Segja þeir að stjórnendum spítalans sem og heilbrigðisyfirvöldum hafi verið full ljóst að hættuástand skapist á deildinni við þær aðstæður sem lýst er í tilkynningunni.

„Það hefur ekki leitt til neinna breytinga og sjúklingum er boðið uppá að liggja á bekkjum á göngum deildarinnar, í öllum skúmaskotum og jafnvel í herbergi ætluðu starfsfólki til að matast í og inn á herbergi ætluðu aðstandendum,“ skrifa hjúkrunarfræðingarnir.

Mikill biðtími geti því verið eftir aðstoð heilbrigðisstarfsfólks á Bráðamóttökunni.

„Daglega kemur upp sú staða að sjúkrabílar bíða með sjúklinga á börum þar sem ekki er til pláss og daglega fyllist biðstofa Bráðamóttökunnar af veiku og slösuðu fólki sem bíður allt upp í 6 klst eftir því að komast inn í skoðun, greiningu og meðferð,“ segir í tilkynningunni.

Segir stjórn og for­stjóra Land­spítala óhæf til að leysa vanda bráða­mót­töku

Fjöldi þeirra sem þurfi á aðstoð Bráðamóttökunnar sé dag eftir mun meiri en gert er ráð fyrir.

„Dag eftir dag fer fjöldi sjúklinga yfir 80 talsins í rými sem ætlað er 36 veikum og slösuðum. Dag eftir dag bíða allt að 30 sjúklingar eftir innlögn á legudeildir spítalans og þegar verst lætur bíða á deildinni milli 40 og 50 sjúklingar eftir innlögn á legudeildir,“ segir í tilkynningunni.

Óttinn við að gera mistök sé mikill við þessar aðstæður.

„Hættuástand vegna þess að öryggi sjúklinga er ekki tryggt, vegna þess að líkur á mistökum stóraukast og vegna þess að hjúkrunarfræðingar, jafnt og annað starfsfólk er yfirkeyrt á vöktum sínum vikum og mánuðum saman.

Við þessar starfsaðstæður óttast starfsfólk að gera mistök sem geta haft alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar og þurfa að lifa með því.“


Tengdar fréttir

Löng bið á bráðamóttöku og þung staða á Landspítala

Landspítali vekur athygli á því að mikið álag er núna á spítalanum, sérstaklega á bráðamóttöku spítalans í Fossvogi. Fólk sem leitar á bráðamóttöku vegna vægari slysa eða veikinda má því gera ráð fyrir langri bið eftir þjónustu. Þetta segir í tilkynningu frá Landspítalanum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.