Svona lýsa hjúkrunarfræðingar á Bráðamótttöku Landspítalans ástandinu þar í fréttatilkynningu sem þeir sendu á fjölmiðla í kvöld.
Segja þeir að stjórnendum spítalans sem og heilbrigðisyfirvöldum hafi verið full ljóst að hættuástand skapist á deildinni við þær aðstæður sem lýst er í tilkynningunni.
„Það hefur ekki leitt til neinna breytinga og sjúklingum er boðið uppá að liggja á bekkjum á göngum deildarinnar, í öllum skúmaskotum og jafnvel í herbergi ætluðu starfsfólki til að matast í og inn á herbergi ætluðu aðstandendum,“ skrifa hjúkrunarfræðingarnir.
Mikill biðtími geti því verið eftir aðstoð heilbrigðisstarfsfólks á Bráðamóttökunni.
„Daglega kemur upp sú staða að sjúkrabílar bíða með sjúklinga á börum þar sem ekki er til pláss og daglega fyllist biðstofa Bráðamóttökunnar af veiku og slösuðu fólki sem bíður allt upp í 6 klst eftir því að komast inn í skoðun, greiningu og meðferð,“ segir í tilkynningunni.
Segir stjórn og forstjóra Landspítala óhæf til að leysa vanda bráðamóttöku
Fjöldi þeirra sem þurfi á aðstoð Bráðamóttökunnar sé dag eftir mun meiri en gert er ráð fyrir.
„Dag eftir dag fer fjöldi sjúklinga yfir 80 talsins í rými sem ætlað er 36 veikum og slösuðum. Dag eftir dag bíða allt að 30 sjúklingar eftir innlögn á legudeildir spítalans og þegar verst lætur bíða á deildinni milli 40 og 50 sjúklingar eftir innlögn á legudeildir,“ segir í tilkynningunni.
Óttinn við að gera mistök sé mikill við þessar aðstæður.
„Hættuástand vegna þess að öryggi sjúklinga er ekki tryggt, vegna þess að líkur á mistökum stóraukast og vegna þess að hjúkrunarfræðingar, jafnt og annað starfsfólk er yfirkeyrt á vöktum sínum vikum og mánuðum saman.
Við þessar starfsaðstæður óttast starfsfólk að gera mistök sem geta haft alvarlegar og óafturkræfar afleiðingar og þurfa að lifa með því.“