Á bráðamóttökunni er sjúklingum núna forgangsraðað eftir bráðleika og ef kostur er vísað á heilsugæslustöðvar eða Læknavakt utan opnunartíma heilsugæslu. Á tímum heimsfaraldurs COVID-19 er sérstaklega mikilvægt er að almenningur taki tillit til ofangreindra aðstæðna á bráðamóttöku, ef mögulegt er.
Forstjórinn biðlar til starfsfólks í sumarorlofi
Fjórða bylgja faraldurs Covid-19 er í mikilli uppsveiflu í samfélaginu og enn virðist hátindinum ekki náð. Þetta á sér stað á sama tíma og sumarleyfi starfsfólks Landspítala standa yfir. Andspænis þessari ógn þarf nú víðtækt viðbragð á Landspítala þar sem spítalinn starfar á hættustigi og mönnun mjög víða er tæp. Af því tilefni hefur forstjóri Landspítala meðal annars biðlað til starfsfólks í sumarorlofi um að huga þegar í stað að því að stytta orlof, ef nokkur kostur er.
Landspítali hefur nú starfað í eitt og hálft ár á ýmsum óvissu- og hættustigum og þurft að krefjast mikils framlags af starfsfólki, sem hefur á löngum köflum starfað undir gríðarlegu álagi við erfiðar og fordæmalausar aðstæður.
Til marks um ástandið hefur fólki í eftirliti á Covid-göngudeildinni fjölgað jafnt og þétt að undanförnu og sömuleiðis inniliggjandi sjúklingum á spítalanum. Á sama tíma er fjöldi starfsfólks í einangrun og sóttkví, sem auðveldar ekki mönnun.
Spítalinn vísar á heilsugæslustöðvar
Í tilkynningu frá landspítalanum er bent á Læknavaktin í Austurveri við Háaleitisbraut er með opna móttöku alla virka daga frá klukkan 17 til 23:30 og um helgar frá klukkan 9 til 23:30.
Þá er minnt á að hjúkrunarfræðingar eru á vakt allan sólarhringinn í símum 1770 og 1700 og sinna þar faglegri símaráðgjöf og vegvísun í heilbrigðiskerfinu fyrir allt landið. Sérfræðingar hjá 1770 meta þörf fyrir þjónustu og koma hlutum í farveg.