Enski boltinn

Fær vasapening frá eiginkonunni eftir að hann tapaði húsinu þeirra í veðmálum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Paul Merson lék lengst af ferilsins með Arsenal.
Paul Merson lék lengst af ferilsins með Arsenal. getty/Ben Radford

Paul Merson, fyrrverandi leikmaður Arsenal og enska landsliðsins, fær vasapening frá eiginkonu sinni, Kate, eftir að hann tapaði húsi þeirra í veðmálum.

Merson hefur lengi glímt við spilafíkn og var illa haldinn á meðan útgöngubanninu vegna kórónuveirufaraldursins stóð.

„Ég tapaði öllu en sagði Kate ekki frá því í fyrstu. Næstu vikuna horfði ég á krakkana mína og hataði sjálfan mig. Ég hugsaði að ég vildi drepa mig. Hvernig gat ég tekið öryggið frá þeim,“ sagði Merson við The Sun.

Hann hefur lengi glímt við spila-, áfengis- og eiturlyfjafíkn. Merson segist hafa tapað rúmlega sjö milljónum punda í veðmálum í gegnum árin.

Merson, sem er 53 ára, varð tvisvar sinnum Englandsmeistari og einu sinni bikarmeistari með Arsenal auk þess sem hann vann Evrópukeppni bikarhafa með liðinu. Hann lék 21 landsleik fyrir England og skoraði þrjú mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.