Erlent

Bannað að fjarlægja verju í miðjum klíðum

Kjartan Kjartansson skrifar
Þau sem hafa lent í því að bólfélagi fjarlægi verju án vitundar þeirra lýsa ótta við smitsjúkdóma og óléttu auk þess sem þau upplifa svik og nauðgun.
Þau sem hafa lent í því að bólfélagi fjarlægi verju án vitundar þeirra lýsa ótta við smitsjúkdóma og óléttu auk þess sem þau upplifa svik og nauðgun. Vísir/Getty

Ólöglegt er nú að fjarlægja smokk án samþykkis samkvæmt nýjum lögum sem ríkisstjóri Kaliforníu í Bandaríkjunum staðfesti í síðustu viku. Kalifornía varð þá fyrsta ríkið til að banna slíkt hátterni

Með lögunum er það nú skilgreint sem kynferðisofbeldi að fjarlægja smokk á meðan á kynferðislegum athöfnum stendur án samþykkis í einkamálarétti í Kaliforníu. Þverpólitísk sátt var um málið á ríkisþinginu.

„Við vildum tryggja að það væri ekki aðeins ósiðlegt heldur ólöglegt,“ sagði Cristina García, ríkisþingkona sem lagði frumvarpið fram.

Hún hafði áður lagt fram frumvörp um að gera athæfið saknæmt en þau hlutu ekki brautargengi í þinginu. Nýju lögin gera fórnarlömbum kleift að stefna geranda til skaðabóta en ekki er hægt að gefa út ákæru vegna þess.

Rannsóknir benda til þess að það að karlmaður fjarlægi smokk án vitundar eða vilja bólfélaga síns sé tiltölulega algengt. Það hefur verið nefnt laumupukur (e. stealthing). Ein þeirra bendir til þess að 12% kvenna á aldrinum 21-30 ára hafi orðið fyrir því.

Breska ríkisútvarpið nefnir dæmi um vændiskonu í Alaska sem varð ólétt eftir að kúnni fjarlægði smokk án vitundar hennar fyrir um þrjátíu árum. Hún þurfti að greiða tugi þúsunda króna fyrir þungunarrof og var óvinnufær í mánuð á eftir.

Nýju lögin í Kaliforníu gera kynlífsverkafólki sem lendir í sambærilegum aðstæðum kleift að stefna kúnnum. Þannig eiga er þeim meðal annars ætlað að veita því og öðrum jaðarsettum hópum í réttarkerfinu aukna lagavernd.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×