Fótbolti

Dagný byrjaði í jafntefli - Alexandra og stöllur aftur á sigurbraut

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir
Dagný Brynjarsdóttir

Tvær íslenskar landsliðskonur voru í eldlínunni í evrópskum fótbolta í dag, annars vegar í ensku úrvalsdeildinni og hins vegar í þýsku úrvalsdeildinni.

Dagný Brynjarsdóttir hóf leik hjá West Ham þegar liðið tók á móti Birmingham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. 

Fyrri hálfleikur var markalaus en á 54.mínútu kom Claudia Walker West Ham í forystu. Forystan entist stutt því Birmingham jafnaði metin þrettán mínútum síðar.

Dagný var skipt af velli á 80.mínútu en fleiri urðu mörkin ekki og 1-1 jafntefli niðurstaðan.

Í þýsku úrvalsdeildinni hóf Alexandra Jóhannsdóttir leik á varamannabekk Frankfurt sem heimsótti Essen. Alexandra kom inná á 71.mínútu en þá var staðan 0-1, Frankfurt í vil.

Alexandra hjálpaði liði sínu að tvöfalda forystuna og lauk leiknum með 0-2 sigri Frankfurt sem hefur tólf stig eftir fyrstu fimm leiki deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×