Umfjöllun og myndir: Breiðablik - PSG 0-2 | Frábær frammistaða Blika gegn frönsku meisturunum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásta Eir Árnadóttir trúir vart eigin augum.
Ásta Eir Árnadóttir trúir vart eigin augum. Vísir/Vilhelm

Breiðablik tapaði fyrir Frakklandsmeisturum Paris Saint-Germain, 0-2, í fyrsta leik sínum í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á Kópavogsvelli í kvöld. Léa Khelifi og Grace Geyoro skoruðu mörk PSG.

Frammistaða Breiðabliks var frábær og miklu betri en þegar liðið mætti PSG fyrir tveimur árum. Þá sáu Blikar ekki til sólar en núna áttu þær í fullu tré við ógnarsterkt Parísarlið meðan þær höfðu orku til og fengu svo sannarlega tækifæri til að skora.

Frammistaðan í kvöld gefur allavega góð fyrirheit fyrir leikina sem framundan eru í Meistaradeildinni. Það er allavega ljóst að Blikar verða ekkert fallbyssufóður í riðlinum, það er svo langt frá því.

Allt það helsta úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Blikar byrjuðu leikinn stórvel og þorðu að sækja á Frakkana. Á 10. mínútu fékk Breiðablik aukaspyrnu á frábærum stað, rétt fyrir utan vítateig, Agla María reyndi skot í markvarðarhornið en Barbora Votíová varði.

Eftir þessu góðu byrjun Breiðabliks náði PSG betri tökum á leiknum. Á 13. mínútu varði Telma Ívarsdóttir frá Marie-Antoinette Katoto úr ágætis færi. Hún kom hins vegar engum vörnum við þegar Khelifi kom gestunum yfir fjórum mínútum síðar. Sakina Karchaoui átti þá fyrirgjöf frá vinstri, Khelifi skilaði sér inn á vítateiginn og skoraði með skoti í fyrsta.

Hildur Antonsdóttir fellur í baráttu við markaskorarann Grace Geyoro.vísir/vilhelm

Blikar lögðu ekki árar í bát og á 26. mínútu fékk Agla María sannkallað dauðafæri. Hún slapp þá í gegnum vörn Parísarliðsins eftir slaka sendingu Kheiru Hamraoui til baka en Votíová varði frá henni. Breiðablik fékk hornspyrnu og eftir hana skallaði Karitas Tómasdóttir framhjá.

Fimm mínútum fyrir hálfleik átti Heiðdís Lillýjardóttir frábæra sendingu fram hægri kantinn á Karenu Maríu Sigurgeirsdóttur. Akureyringurinn, sem lék sinn fyrsta leik fyrir Breiðablik í kvöld, tók hins vegar ranga ákvörðun og skaut í stað þess að senda boltann fyrir. Strax í næstu sókn komst Kadidiatou Diani í dauðafæri en Telma varði vel með fætinum.

Kristín Dís Árnadóttir fékk kjörið tækifæri til að jafna í upphafi seinni hálfleiks.vísir/vilhelm

Breiðablik byrjaði seinni hálfleikinn með látum. Eftir hornspyrnu Öglu Maríu áttu Blikar tvö skot í varnarmenn Parísarliðsins og Kristín Dís Árnadóttir skallaði svo yfir úr dauðafæri. Votíová náði að klóra í boltann áður en hann barst til Kristínar og sú snerting var gulls ígildi.

Á 50. mínútu átti Karchaoui fyrirgjöf frá vinstri á Diani sem átti skot á lofti sem fór framhjá. Skömmu síðar bjargaði Paulina Dudek því að Hildur kæmist í boltann í dauðafæri. Á 57. mínútu skaut Katoto svo yfir úr dauðafæri undir pressu frá Heiðdísi.

Eftir þessa fjörugu byrjun á seinni hálfleik datt leikurinn aðeins niður. PSG hélt boltanum vel og hafði góða stjórn á aðstæðum. Á meðan dró af leikmönnum Breiðabliks og sóknum þeirra fækkaði. Það hjálpaði líka franska liðinu að geta sett heimsklassa leikmenn eins og Ramonu Bachmann og Söru Däbritz inn á. Skömmu eftir að sú fyrrnefnda kom inn á átti hún sendingu á Geyoro sem átti skot sem Telma varði yfir.

Taylor Ziemer lék vel á miðju Breiðabliks.Vísir/Vilhelm

PSG herti tökin með hverri mínútunni og markið lá í loftinu. Hafrún Rakel Halldórsdóttir bjargaði á línu frá Diani og Telma slapp svo vel þegar hún missti skot Däbritz næstum því inn.

Þegar mínúta var eftir veitti PSG Breiðabliki svo náðarhöggið. Amanda Ilestedt átti þá langa sendingu fram, Geyoro stakk Heiðdísi af og skoraði með skoti undir Telmu. Lokatölur 0-2, PSG í vil.

Af hverju vann PSG?

Frakkarnir þurftu að hafa mikið fyrir hlutunum en sýndu á köflum hversu góðar þær eru. Það kom sérstaklega í ljós eftir því sem leið á leikinn og þreytan fór að segja til sín hjá Blikum.

Hverjar stóðu upp úr?

Telma átti sennilega sinn besta leik fyrir Breiðablik, var örugg í öllum sínum aðgerðum, fyrir utan skotið frá Däbritz, og varði tvisvar sinnum mjög vel. Agla María var mjög ógnandi í fyrri hálfleik en sást minna í þeim seinni. Karen María komst svo vel frá sínu í fyrsta leiknum í grænu treyjunni.

Karen María Sigurgeirsdottir á ferðinni í sínum fyrsta leik fyrir Breiðablik.Vísir/Vilhelm

Hafrún Rakel lék einkar vel í stöðu vinstri bakvarðar og bjargaði glæsilega á línu frá Diani. Miðjumenn Breiðabliks hlupu eflaust maraþon saman og svo mætti áfram telja. Frammistaða Breiðabliks var einfaldlega dúndurgóð.

Karchaoui var besti leikmaður PSG, lagði upp markið og annað gott færi til. Diani var mjög ógnandi og Hamraoui stýrði spilinu vel.

Hvað gekk illa?

Agla María er eflaust svekkt að hafa ekki nýtt dauðafærið sem hún fékk í fyrri hálfleik og Karen María átti einnig að gera betur í færinu sem hún fékk undir lok hans.

Agla María Albertsdóttir fékk besta færi Blika.Vísir/Vilhelm

Hvað gerist næst?

Eftir viku mætir Breiðablik Real Madrid á Spáni í 2. umferð riðlakeppninnar. Sama dag mætir PSG Kharkiv í París.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira